Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:48:56 (942)

2002-11-01 14:48:56# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við fjölluðum dálítið um verðbætur og öll þau mál í fyrravetur. Ég veit að það eru eitthvað skiptar skoðanir um það hvort rétt sé að afnema verðbætur á lán. Engu að síður hefur það ekki verið stefna ríkisstjórnarinnar að falla frá því að nota þetta fyrirkomulag.

Verðbólga fer lækkandi og þegar verðbólga er lág þá eru verðbætur litlar. Vextir eru líka á niðurleið þannig að það er svo sem hægt að benda á ýmsa jákvæða þætti. En ég held að óþarflega mikið sé úr því gert að það sé eitthvert vandamál að við séum með þetta fyrirkomulag að hafa verðbætur og það hefur ekkert með það að gera hvort stjórnvöld hafa trú á því sem þau eru að gera í sambandi við efnahagsmál. Að sjálfsögðu hefur ríkisstjórnin trú á því sem hún er að gera.