Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:51:24 (945)

2002-11-01 14:51:24# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:51]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er ég líka þingmaður, en í þessu tilfelli tala ég sem ráðherra. Ég hef ekki mætt á neinn andafund en er þó þeirrar skoðunar að andi laganna sé sá að það beri ekki að líta á stofnfé sem hlutafé og að þetta sé tvennt mjög ólíkt.

Ég ætla ekki að bera saman Baug og SPRON eða sparisjóði. Ég held að það sé ekki heldur sambærilegt og eigi ekki erindi inn í þessa umræðu.

Hæstv. forseti. Ég hlýt að mega hafa skoðun á því hvernig líta megi á það tilboð sem barst frá fimmmenningunum í SPRON. Ég sagði áðan að það hefði verið ólöglegt. Ég hef fyrst og fremst haldið því fram að það gengi ekki upp, enda varð það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að tilboðið eins og það lá fyrir gengi ekki upp. Það er kannski ekki alveg það sama og að það sé ólöglegt. En ég er enginn dómari þó ég segi að ég telji það hafa verið ólöglegt.