Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:07:09 (956)

2002-11-01 15:07:09# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir tillitssemina. Það stóð aldrei annað til en að vera á staðnum á tilsettum tíma, og taka til máls og svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. Ég vona að ég hafi náð þeim niður að mestu leyti og að ég geti líka lesið reseptskriftina mína frá því í gær.

Það er rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði um að úthlutanir eins og við ræðum hérna verða aldrei annað en umdeildar. Það þarf að gefa sér þar ákveðnar forsendur. Jafnvel þó að þær séu eins hlutlægar og hægt er að gera þær eru aðstæður einstaklinga bara svo mismunandi að alltaf er hætta á og jafnvel óumflýjanlegt að einhverjum finnist þeir bera skarðan hlut frá borði.

Þess vegna eru líka byggðir eða svæði útgangspunkturinn í þessum úthlutunum en ekki einstaklingarnir. Þegar við metum hvort markmiðunum sé náð eða hvort vel sé að verki staðið eða illa verðum við að horfa á það út frá því sjónarmiði.

Við höfum úthlutað byggðakvóta í gegnum Byggðastofnun og á þann hátt tekist að hjálpa aðilum sem hafa verið í vissum erfiðleikum. Þó held ég að engum blandist hugur um að ekki hefur tekist að hjálpa á eins mörgum stöðum og við hefðum viljað.

Síðan var krókaaflamarksúthlutunin hér til umræðu í gær. Ég lít á hana sem eins konar tölvuúthlutun. Þar voru sett upp ákveðin skilyrði, þau sett inn í tölvuna og síðan kom út niðurstaða. Með þeirri aðferð hefur tekist að hjálpa, að ég tel, mjög mörgum byggðarlögum og styrkja mörg önnur. En vegna þeirra skilyrða sem þar voru sett til að ná markmiðunum, og reyndar vegna skilyrða í lagatextanum, má vel vera að ekki hafi tekist að hjálpa eins mörgum og einhverjir héldu að mögulegt væri.

Spurt var út frá þessu hvort beitt yrði sömu aðferðinni og við úthlutun byggðakvóta sem sjútvrh. skal úthluta. Því er til að svara að væntanlega verður ekki beitt sömu aðferð. Aðferðin sem er í vinnslu er miklum mun líkari þeirri aðferð sem Byggðastofnun beitti á sínum tíma. Ég held hins vegar að ekki sé rétt fyrir mig að fara lengra út í það að svo stöddu þar sem þeirri vinnu er ekki lokið. Eins og áskilið er í lagatextanum er verið að vinna þetta í samráði við Byggðastofnun.

Spurt var af hverju þessi vinna hefði ekki gengið hraðar fyrir sig. Það á sér rætur í því að í upphafi gekk illa að púsla saman tíma starfsmanna Byggðastofnunar og ráðuneytisins. Lagasetningunni var ekki lokið fyrr en í maí og síðan brustu á sumarfrí. Þegar fyrirséð var svo að ekki tækist að meðhöndla 500 tonnin á þann hátt sem við vildum --- við viljum gera þetta vel á síðasta fiskveiðiári --- fannst mér réttast að taka inn í viðmiðunina nýjustu upplýsingar sem við hefðum um stöðuna, þá miðað við kvótaúthlutun frá 1. september sl. Síðan líða einhverjar vikur frá því 1. september er liðinn áður en við sjáum endanlegu tölurnar. Þetta getur skipt máli fyrir einstök sveitarfélög sem eru í verri stöðu eftir úthlutunina 1. september sl. en þau voru í eftir úthlutunina 1. september (JÁ: Þar áður.) þar áður. Þetta á sér þessar skýringar.

Ýmislegt hefur borið á góma í umræðunni, m.a. hefur verið gagnrýnt að lögin um stjórn fiskveiða hafi oft verið endurskoðuð. Þau eru nú 12 ára gömul og miðað við hversu mikilvæg þessi atvinnugrein er í þjóðfélagi okkar finnst mér ekkert skrýtið þó að kannski séu gerðar ívið oftar breytingar á þeim en á lögum um málaflokka sem eru minni breytingum háðir en sjávarútvegurinn. Ég held því að ekki eigi að leggja mönnum það til lasts að hafa verið tilbúnir til að breyta og endurskoða ýmislegt í lögunum um stjórn fiskveiða.

Menn verða hins vegar að reyna að vinna að því hverju sinni eins vel og þeir geta, og ég hef trú á því að við sem hér erum berum öll þann hug til starfa okkar.

Einnig var fundið að því að við værum komin út í óþarflega miklar úthlutanir úr pottum og sagt að það væri merki um að ekki hefði tekist nógu vel til þegar lögin voru samin, ekki hefði tekist nógu vel til með kvótakerfið og það gagnrýnt að þetta væri bót á bót, eins og hv. þm. Gísli Einarsson nefndi það. (GE: Það er svoleiðis). En þá vil ég (GE: Viðbót.) minna menn á að þegar fiskveiðistjórnarlögin voru samþykkt 1990, eins og við þekkjum þau í dag, var strax í upphafi gert ráð fyrir svona pottum. Það var í hugum margra grundvallarforsenda fyrir því að þeir féllust á löggjöfina að til væru pottar sem hægt væri að grípa til ef upp kæmu vandamál sem erfitt reyndist að leysa á annan hátt. Löggjöfin var byggð á grundvallaratriði um kvótaúthlutun, þ.e. að framseljanlegum kvóta væri úthlutað á skip. Þó að þetta sé umdeilt, eins og ég nefndi í upphafi, hefur þetta verið hluti af þessu stjórnkerfi frá því að lagt var upp með það.

[15:15]

Hv. þm. Karl V. Matthíasson nefndi það í umræðunni hvort vissar útgerðir væru ekki komnar með of stóran hluta af kvótanum þannig að það jaðraði við að vera lögbrot. Ég held að það hafi verið nokkurn veginn svona ... (KVM: Miðað við 12. gr.) já, miðað við 12. gr. --- orðalagið sem hann notaði. (Gripið fram í: Eða 11. gr.) Auðvitað er það rétt að útgerðir eru komnar nálægt hámarkinu eins og það er í dag. (KVM: 11. gr.) 11. gr. já. Þakka þér fyrir. Ég held að það sé kannski ekki hægt að setja þetta í það samhengi að það jaðri við að það sé lögbrot því enn þá er það innan markanna og innan þeirra marka sem Alþingi ákvað 1998. Eins og ég hef áður minnst á hér á haustþinginu voru þau mörk sem þá voru ákveðin hærri en þáv. hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnin lögðu til. Ég hef talið að Alþingi hafi sýnt þarna framsýni og ég hef ekki uppi neinar fyrirætlanir um að leggja til breytingar á þessu, hvorki til hækkunar né lækkunar, enda fórum við yfir þetta á vorþingi síðasta þings.

Ég vil minnast á tvö atriði til viðbótar sem voru sérstaklega nefnd, annars vegar það sem hv. þm. Karl V. Matthíasson nefndi, reyndar tvö atriði sem hann nefndi, þ.e. annars vegar Þingeyri og hins vegar talaði hann um að menn neyddust til þess að landa fram hjá og svindla. Hann sagðist hafa heyrt um það.

Þingeyri féll ekki að þeim skilyrðum sem sett voru í þessari krókaaflamarksúthlutun. En Þingeyri fékk hins vegar mjög myndarlega úthlutun úr byggðakvóta Byggðastofnunar. Ég held því ekki að Þingeyri sem slík sé illa haldin þegar við horfum á heildarmynd þessara úthlutana. Ég held við verðum að horfa á þetta í heild. Við náum kannski ekki að hjálpa öllum með sömu aðferðinni. En þegar við horfum á þær þrjár aðferðir í byggðaúthlutunum sem við erum með --- og svo má kannski telja með fjórðu aðferðina, Jöfnunarsjóðinn í 9. gr. sem hefur á undanförnum árum verið notaður vegna rækju í Húnaflóa og Ísafjarðardjúpi og reyndar víðar --- má segja að við séum svona nokkurn veginn að ná til flestra þeirra sem við vildum ná til á þennan hátt.

Varðandi það að landa fram hjá og svindla þá vita menn auðvitað hvað þeir eiga að gera ef þeir vita um eitthvað slíkt og það verða þeir að eiga við sína eigin samvisku. (KVM: Ég sagðist ekki vita um að það væri gert.) Það er gott. Þá er samviskan laus frá þeirri ákvarðanatöku.

Fyrir utan það sem ég nú hef komið inn á nefndi hv. þm. Kristján L. Möller flutninga á landi. Auðvitað er það rétt hjá honum að það getur verið íþyngjandi fyrir fiskvinnslur sem byggja á því að kaupa afla langt að ef flutningskostnaður er mikill. Hins vegar verður að halda því til haga að það virkar auðvitað í báðar áttir. Ef menn kaupa fisk á höfuðborgarsvæðinu þá er um að ræða flutningskostnað frá höfuðborgarsvæðinu en ef höfuðborgarsvæðið er að kaupa fisk annars staðar frá þá skapast auðvitað flutningskostnaður á samsvarandi vegalengd til höfuðborgarsvæðisins. Það ætti því að koma jafnt niður á báða aðila á hvorum staðnum sem þeir eru. Hins vegar getur það haft áhrif ef það blandast inn í að við þessa flutninga sé hráefnið að flytjast nær útflutningsstað í öðru tilfellinu en sé að flytjast frá útflutningsstað í hinu tilfellinu. Það tengist kannski ekki beinlínis fiskveiðistjórnarkerfinu heldur því flutningskerfi sem byggst hefur upp í kringum landið.

Herra forseti. Ég held að ég hafi svarað helstu atriðunum sem fram komu í umræðunni, enda er tími minn næstum á þrotum.

Ég vil að lokum þakka þingmönnum ágætar undirtektir við frv. Ég hef ekki orðið var við neina andstöðu við efnisatriði þess þótt af eðlilegum orsökum hafi menn notað tækifærið og rætt ýmis mál sem því tengjast.