Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:21:44 (957)

2002-11-01 15:21:44# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin.

Mig langaði til að spyrja ráðherrann hvort þessar reglur sem gefnar verða út hljóti ekki að verða ákaflega líkar fyrri reglum Byggðastofnunar. Byggðastofnun getur varla verið að útbúa reglur um úthlutun á fiski sem verða eitthvað öðruvísi en þær reglur sem þegar eru í gildi um úthlutun byggðakvóta hjá stofnuninni. Það væri nokkuð skrýtið ef svo væri.

Hins vegar benti hæstv. ráðherra á að líka er hægt að úthluta kvóta vegna aflabrests í ákveðnum tegundum og þá er miðað við útgerðir sem veiða þær tegundir. Ef aflabrestur verður í t.d. skel á Breiðafirði þá vænti ég þess að skelbátarnir á Breiðafirði hafi fengið úthlutað þeim kvóta sem kom, en ekki kannski sjálf fyrirtækin sem unnu skelina. Eða var það þannig? Og fór þá fiskurinn annað, í aðra landshluta?

Svo langar mig að benda á að öll eru þessi byggðarlög eða svæði í Ísafjarðarbæ, þ.e. Þingeyri, Suðureyri, Flateyri, Ísafjörður og Hnífsdalur, þannig að það er spurning hvernig eigi að taka á þessum málum.

Þegar útgerðir urðu fyrir ýsuskerðingunni miklu vegna laganna í vor þá kom í ljós að þeir voru heppnir sem bjuggu í ákveðnum byggðarlögum en þeir voru óheppnir sem bjuggu þar ekki. Það var alveg hrikalegt að horfa upp á hvernig það kom út og þó að Þingeyri hafi haft betri kvótastöðu að þessu sinni þá er ekki nema von að þessi atriðu séu nefnd í umræðunni því þetta veltur á milljónum króna.