Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:28:11 (961)

2002-11-01 15:28:11# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra tók þannig til orða að hægt hefði verið að hjálpa með byggðakvóta og ,,við hefðum viljað geta hjálpað meira``, sagði hæstv. ráðherra.

Ber að skilja þetta þannig að hann hafi áhuga á því að auka byggðakvótann og er þá von á því að einhverjar tillögur komi um að bætt verði við hann?

Síðan langaði mig til að spyrja vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að ekkert væri óeðlilegt við að lögum um stjórn fiskveiða hafi oft verið breytt. Í fyrravetur var töluvert talað um það í tengslum við stóra ágreiningsmálið sem fór hér í gegn, um veiðigjaldið, að til stæði að breyta lögunum, ekki bara lögunum um stjórn fiskveiða heldur breyta stjórnarskránni og setja þar ákvæði inn. Það kom yfirlýsing frá hæstv. forsrh. um þetta efni. Í umræðum hér á þinginu kom það fram. Nú hefur ekki nein slík tillaga birst á verkefnalista ríkisstjórnarinnar. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi þá skoðun að breyta eigi stjórnarskránni eins og um var rætt í fyrra og hvort það sé þá von á slíkri breytingu til meðferðar í þinginu í vetur.