Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:34:56 (965)

2002-11-01 15:34:56# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég var að reyna að útskýra fyrr á fundinum þá eru byggðirnar viðmiðið og staða byggðanna og hvernig það var að breytast vegna kvótasetningar á aukategundum þorskaflahámarksbátanna. Viðmiðin miðuðust við það. Hlutur Þingeyrar, ef ég man þetta rétt, var ekki það stór að það réttlætti að Þingeyri fengi úthlutun úr þessum krókaaflamarksbyggðapotti.

Það út af fyrir sig hefur ekkert beint með það að gera að Þingeyri hafði fengið úthlutað úr byggðapotti Byggðastofnunar og ekkert með það að gera hvort það var bæjarstjórnin eða einhver annar sem tók þá ákvörðun. En auðvitað hefur það haft einhver áhrif á heildarkvótastöðuna í byggðarlaginu og þar með haft óbein áhrif á það hvort úthlutað var úr krókaaflamarksbyggðapottinum til Þingeyrar.

Eins og menn gera sér grein fyrir þá hangir þetta allt saman á einhvern hátt. Ekkert af þessu er 100% óháð öðru sem gert er. Það sem skiptir hins vegar máli er að engin byggð, byggðarlag eða svæði sé útilokað fyrir fram í þeim reglum sem settar eru og að reglurnar gildi jafnt um alla og að þegar við stöndum upp frá því að vinna þetta verk með þessum þremur og jafnvel fjórum úthlutunum ef ég tek 9. greinar úthlutunina með, þá náum við til sem flestra af þeim sem við viljum ná til í þessum efnum.