Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:49:26 (969)

2002-11-01 15:49:26# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Fyrr þegar þessi umræða fór fram var auðvitað rætt um áframeldi á þorski en umræðan snerist mikið um kvótann sem hér átti að úthluta til að styrkja byggðirnar. Ég fagnaði í þeirri umræðu því að hæstv. ráðherra væri með smákvóta sem hægt væri að nota til að laga ástandið þar sem það væri orðið slæmt. Það var svo með þau 1.500 tonn sem Byggðastofnun réð yfir að þau komu sér virkilega vel þar sem þau komu niður. Þingeyri var nefnd hér áðan en auðvitað var það ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðar að kvóti sem fór á Flateyri og Suðureyri yrði jafnframt settur á Þingeyri af því þar var ástand virkilega slæmt.

Ástandið er víða slæmt og þess að vænta að sú úthlutun sem ráðherra mun vinna í samráði við Byggðastofnun verði notuð þar sem ástandið hefur verið slæmt. Hér hafa verið nefndir staðir eins og Hrísey í því sambandi.

Hér er um stórmál að ræða, þar sem verið er að tala um sameiginlega auðlind þjóðarinnar, nytjastofnana á Íslandsmiðum. Hér var frjó umræða fyrr í dag um fé án hirðis, í umræðu um annað lagafrv. Þar var auðvitað rætt um fjármuni sparisjóðanna. Umræðan þróaðist fræðilega út í fjármuni ríkssjóðs og hver væri hirðir þeirra fjármuna.

Það mætti þá kannski spyrja hæstv. sjútvrh.: Hver er hirðir stærstu auðlindar og mestu fjármuna íslensku þjóðarinnar, nytjastofna á Íslandsmiðum sem eru sameign þjóðarinnar og á að nota til að treysta atvinnu og efla byggð?