Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:58:37 (972)

2002-11-01 15:58:37# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þorsk fyrir Suðurlandi þá hefur reynslan ekki verið sú að allir kvótarnir hafi flust suður, jafnvel þótt þorskurinn sé stærri fyrir sunnan. Þar koma fleiri þættir inn eins og með fiskeldið.

Varðandi stuðlana og þorskígildin, þar sem hv. þm. vísaði til greinargerðarinnar frá því sl. vor, þá er það í undirbúningi.

Í þriðja lagi, varðandi það sem hann sagði um breytileikann í hafinu og að reynslan frá fyrri tíð endurspegli ekki stöðuna eins og hún er í dag, má það vissulega til sanns vegar færa. En þá kemur framsalið inn í, framsalið og sveigjanleikinn í kerfinu. Það á að gera mönnum kleift að laga sig að breyttum aðstæðum að þessu leyti sem öðrum breytingum sem verða í umhverfi útgerðar og fiskvinnslu.