Fjölgun fjárnáma og gjaldþrota

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:04:28 (977)

2002-11-04 15:04:28# 128. lþ. 21.1 fundur 205#B fjölgun fjárnáma og gjaldþrota# (óundirbúin fsp.), KVM
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Á sl. ári voru gerð 5.400 árangurslaus fjárnám í eigum einstaklinga og á tíu fyrstu mánuðum þessa árs eru þau orðin 5.300. Þetta er að minni hyggju mjög slæm þróun. Hið sama gildir um gjaldþrotin því búið er að gera 236 einstaklinga gjaldþrota á þessu ári og það stefnir í sama fjöldann og var í fyrra. Gjaldþrotum fyrirtækja fjölgar einnig. Í fyrra voru þau 361 en á fyrstu tíu mánuðum þessa árs eru þau orðin u.þ.b. 400. Gjaldþrot stefna í að verða tvöfalt fleiri þetta árið en árið 1998.

Þessi þróun hlýtur að vekja ráðamönnum ugg. Spurningar hljóta að vakna um það hvort allt þetta fólk sé svona óforsjált og vankunnandi í fjármálum. Einnig vakna spurningar um það hvort reglur um lánveitingar séu nægjanlega góðar. Að minni hyggju er a.m.k. ástæða til að fara vel ofan í þessi mál og bregðast við þeim með það að markmiði að þessu linni. Af því tilefni spyr ég, herra forseti, hæstv. forsrh.: Hefur ríkisstjórnin látið fara fram skoðun á ástæðum fjölgunar þessara fjárnáma og gjaldþrota í landinu? Er vitað hversu margir Íslendingar eru nú þegar orðnir gjaldþrota?