Vextir verðtryggðra bankalána

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:10:59 (982)

2002-11-04 15:10:59# 128. lþ. 21.1 fundur 206#B vextir verðtryggðra bankalána# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil inna eftir áliti hæstv. forsrh. á vaxtaþróun í kjölfar ákvarðana Seðlabankans í vaxtamálum eða í kjölfar leiðsagnar eða þýðingar Seðlabankans. Nú er kunnara en frá þurfi að segja að vaxtastig hér á landi hefur verið afar hátt hin síðustu ár. Síðastliðið eitt og hálft ár og þó einkum undanfarna sex til átta mánuði hefur Seðlabankinn endurtekið lækkað vexti, einum tíu sinnum á einu og hálfu ári, þar af líklega um átta sinnum síðustu átta til tíu mánuði. Lækkunin nemur samtals á þessum tíma rúmum 4,5 prósentustigum. Þegar athugað er hvernig markaðurinn hefur brugðist við eða fylgt þessari leiðsögn Seðlabankans kemur í ljós að vextir af óverðtryggðum lánum hafa gert það nokkuð vel og sömuleiðis vextir af verðtryggðum lánum á almennum markaði, nema í bankakerfinu. Sú merkilega staðreynd blasir við að vextir á verðtryggðum lánum í bankakerfinu hafa nánast ekki lækkað. Þeir eru nánast óbreyttir, um 10,5--11,5 prósentustig ef tekið er mið af því álagi sem algengt er, þ.e. 2,5--3,5% álagi. Hinir almennu vextir verðtryggðra útlána hafa ekki lækkað nema um kannski 0,2--0,3 prósentustig sl. eitt til eitt og hálft ár. Þetta vekur miklar spurningar um stöðu bankakerfisins og hvort samkeppni sé nægjanlega virk, a.m.k. á þessum hluta lánamarkaðarins. Þetta er þeim mun athyglisverðara sem ljóst er að t.d. ávöxtunarkrafa húsbréfa hefur fylgt nokkuð vel niður lækkandi raunvaxtastigi og er núna um 5,2%. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji þetta eðlilega þróun hvað varðar ávöxtun á verðtryggðum útlánum í bankakerfinu og hvort þetta gefi tilefni til að endurskoða þær reglur sem gilda um verðtryggingu fjárskuldbindinga.