Afdrif þingsályktana

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:20:44 (989)

2002-11-04 15:20:44# 128. lþ. 21.1 fundur 207#B afdrif þingsályktana# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fyrst um það sem hv. þm. nefndi í byrjun. Ég tel að hluti af þessari fræðslu, eins og ég skil það a.m.k., komi fyrir undir þeim þætti námskrár sem kallast lífsleikni. Ég hygg að þar hafi einmitt sú nýbreytni verið tekin upp, kannski vegna áhrifa frá umræðu hér í þinginu, að nemendur framtíðarinnar ólíkt okkur þessum gömlu, fái einmitt smjörþef af slíkum hlutum nútímans. Að vísu er sá tími naumt skammtaður og margt sem þarf að læra. En ég hef alltaf skilið það svo að m.a. þeir þættir sem hv. þm. nefndi komi fyrir í því prógrammi sem kallað er lífsleikniþátturinn.

Varðandi ályktanirnar þá er það alveg rétt að við höfum með nokkurra ára millibili skýrt frá, oft í tilefni fyrirspurna, hver hafi orðið örlög þingsályktana. Ég hygg að við höfum talað um að gjarnan mætti gera þetta upplýst árlega og ég vona að við getum staðið við það núna að á þessu þingi, vonandi fyrir jól, náum við því að koma með síðustu skýrslu um það hvernig okkur hefur miðað varðandi ályktanir Alþingis. Ég tel að það sé hollt ekki bara gagnvart stjórnarandstöðunni heldur líka fyrir þá sem skipa ríkisstjórn á hverjum tíma að sjá hvernig þeim vindur fram. Þegar menn fara yfir þetta í ráðuneytunum, þá fá menn vissa áminningu um það að halda sæmilega á spöðunum þannig að ég vona að okkur takist sameiginlega að halda þessu máli á lofti.