Skýrsla um starfslok forstjóra Landssímans

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:22:58 (991)

2002-11-04 15:22:58# 128. lþ. 21.1 fundur 208#B skýrsla um starfslok forstjóra Landssímans# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. samgrh. um svonefnda leyniskýrslu sem fengið hefur það nafn, þ.e. skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfslok fyrrv. forstjóra Landssímans hf.

Ég hef í einkasamtölum við hæstv. ráðherra farið fram á að fá þá skýrslu og hún verði gerð opinber en hann hefur ekki enn þá orðið við þeirri eðlilegu ósk minni. Raunar höfðum við ætlað að eiga um þetta orðastað utan dagskrár en vegna anna hæstv. ráðherra síðar í vikunni varð úr að ég tæki þetta mál upp undir þessum hatti.

Hér er ég að vísa til þeirrar skýrslu sem tekin var saman af hálfu Ríkisendurskoðunar vegna beiðni fyrrum stjórnarformanns Landssímans og laut að viðskilnaði fyrrum forstjóra Landssímans, Þórarins Viðars Þórarinssonar. Þau mál voru hér mjög til umræðu í þinginu fyrr á þessu ári og lutu m.a. að gildum starfslokasamningi sem taldi tæplega 40 millj. og laut m.a. að trjágreinum og öðru því um líku. Í þessum sal, í þessum ræðustól lýsti hæstv. samgrh. því yfir þegar þau mál voru til umfjöllunar, og við þingmenn Samfylkingarinnar lögðum til að sérstök rannsóknarnefnd færi ofan í saumana á þeim hneykslismálum sem skóku þetta þjóðþrifafyrirtæki, Landssímann, að Ríkisendurskoðun væri að skoða málið.

Það lá auðvitað í eðli máls þá og nú að þessi skýrsla yrði gerð heyrinkunn. Það eru engin efni til annars því flestar staðreyndir máls hafa þegar verið sýndar og birtar almenningi. Maður hlýtur að gagnálykta að ef hæstv. ráðherra ætlar enn þá að neita að afhenda þá skýrslu að þar séu einhverjir enn frekari maðkar í mysu. Hann hefur tök á því hér og nú að jánka þessari eðlilegu beiðni minni og ég geng út frá því sem vísu að hann geri það.