Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 16:19:10 (1012)

2002-11-04 16:19:10# 128. lþ. 21.8 fundur 245. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (uppsjávarfiskur) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góð orð í garð frv. Ég kannast við tillögu hans um endurskoðun á mælistuðlum. Þau málefni hafa verið rædd hér áður.

Varðandi nýtingarstuðlana í fullvinnslunni er það að segja að tiltölulega stutt er síðan farið var yfir þessi mál út frá því hvort fullvinnslan hefði forskot umfram landvinnsluna, þ.e. fullvinnsla úti á sjó. Við þá skoðun kom ekki fram gagnrýni á mælistuðlana og hvernig þeir voru fundnir. Ég held að miðað við það hve flókið málið er höfum við náð nokkuð góðum árangri. Það að stuðlarnir eru breytilegir er hvatning til frekari og betri nýtingar hráefnisins.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi um slægingarstuðlana þá hafa farið fram mjög miklar athuganir á þeim. Við höfum mjög góðar upplýsingar um hvert slægingarhlutfallið er eftir árstíma.

Eins og hv. þm. veit var síðastliðið vor lagt til í greinargerð með nál. sjútvn. vegna breytinga á lögum um stjórn fiskveiða að skoða þorskígildisstuðla, m.a. hvort hafa ætti undir- og yfirstuðla. Í þessu sambandi þarf líka að skoða slægingarstuðlana. Þeir geta verið mismunandi eftir hafsvæðum eins og þýðing stuðlanna getur verið.

Varðandi ísprósentuna og vigtarleyfin þá eru það mál sem ég hef verið að skoða á undanförnum vikum. Ég þori ekki að fullyrða um það núna en ég sé a.m.k. ástæðu til að skoða þau nánar, hvað svo sem síðar verður.