Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 16:21:17 (1013)

2002-11-04 16:21:17# 128. lþ. 21.8 fundur 245. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (uppsjávarfiskur) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst gott að heyra að hæstv. ráðherra hafi ákveðið að láta skoða þetta með ísprósentuna. Það er ábyggilega full ástæða til að fara yfir það mál.

Ég tel að það hafi komið fram góð rök í umræðum í fyrra, þ.e. að varasamt geti verið að hafa þorskígildisstuðlana eins og þeir eru og það geti hreinlega haft áhrif á nýtingu fiskstofnanna. Ég hvet til þess að menn haldi áfram að fara yfir þau mál. Ég hefði talið ástæðu til að taka þessi mál heildstætt og af yrði einhvers konar skýrsla þannig að menn gætu á einum stað farið yfir þau mál sem við höfum verið að nefna í þessari umræðu. Þetta væri handhæg skýrsla handa þeim mönnum sem telja, sumir hverjir a.m.k., að þeir séu órétti beittir með þeim stuðlum sem hér var rætt um. Menn mundu þá líka geta skilið forsendurnar, hvernig þeir eru í endurskoðun sem þeir þurfa sífellt að vera til að þeir úreldist ekki. Menn væru þannig betur upplýstir um þessi mál.