Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 16:25:47 (1015)

2002-11-04 16:25:47# 128. lþ. 21.8 fundur 245. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (uppsjávarfiskur) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[16:25]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað stórmál sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson nefnir hér til umræðunnar. Þetta hefur verið til umfjöllunar á vegum ráðuneytisins og er t.d. sérstaklega fjallað um þetta í svokallaðri AVS-skýrslu, um aukið verðmæti sjávarfangs. Þar er farið yfir það hvar möguleikar okkar liggja í að nýta betur aflann sem við drögum úr sjó. Áherslan er einmitt lögð á þennan þátt.

Það er stefna ráðuneytisins að koma þeirri vinnu sem AVS-skýrslan leggur til af stað sem allra fyrst. Ég vænti þess að í framhaldi af því verði litið á þennan þátt og um hann sérstaklega fjallað. Ég vænti þess að við munum komast að bærilegri niðurstöðu sem leiði af sér að sem allra mest af þeim verðmætum sem þarna eru skili sér í þjóðarbúið.