Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 13:54:48 (1027)

2002-11-05 13:54:48# 128. lþ. 22.7 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki gert ítarlega kostnaðaráætlun um þetta sem þyrfti að sjálfsögðu að vinna ef svona tillaga væri tekin til skoðunar í nefnd en mér er sagt að við séum að tala um 10--20 milljónir árlega í kannski fimm ár þannig að við erum þá væntanlega að tala um hámark 100 milljónir miðað við fimm ára tímabil. Ég held að það sé samt svolítið erfitt að spá nákvæmlega fyrir um þetta hvað kostnað varðar vegna þess að það ræðst væntanlega af því hversu mikla vinnu þarf að leggja í tiltekið svæði og það sjá menn kannski ekki allaf fyrir fram.

Um endingu kortanna vil ég segja að reynslan af þessum vinnubrögðum er ekki nema tíu ára. Ríki hafa verið að þróa þetta, þau ríki sem hafa notað þetta. Ég geri ráð fyrir að reglulega fari fram einhver uppfærsla á slíkum kortum eins og öðrum kortum sem gerð eru, af öðrum gróðurkortum og slíku. Það þurfi þá að uppfæra þau reglulega.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki skoðað Noreg sérstaklega. Sú vinna sem hér liggur að baki er með sérstaka áherslu á Evrópusambandslöndin og þau Norðurlandanna sem eru í Evrópusambandinu vegna þess að þessi vinnubrögð eru að miklu leyti mótuð þar og þau ríki sem eru núna að ganga inn í Evrópusambandið hafa verið að taka þau vinnubrögð upp og tileinka sér þau. Ég þekki því ekki hvernig þessu er nákvæmlega fyrir komið í Noregi. En ég veit hins vegar að þessi vinnubrögð sem eru í rauninni unnin upp í kjölfar Bernarsamningsins hafa verið að öðlast meiri og meiri útbreiðslu. Hvort Noregur er inni í þeim pakka get ég því miður ekki svarað.