Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 13:59:45 (1030)

2002-11-05 13:59:45# 128. lþ. 22.7 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi tillaga er ekki flutt að ástæðulausu. Forustu í umhverfismálum á Íslandi skortir sárlega og hefur gert á undanförnum árum. Auðvitað hefðum við átt að sjá einhverjar tillögur eða öllu heldur aðgerðir frá hæstv. umhvrh. í þessu efni og þá hefði kannski ekki þurft að flytja tillögu af þessu tagi.

[14:00]

Hér á Íslandi hafa menn hrakist undan í viðbragðapólitík í umhverfismálum. Það hefur gerst alla tíð. Þó að hér hafi verið stofnað umhvrn. hefur mönnum ekki tekist að koma á eðlilegu ástandi. Þetta er tilraun til þess að vísa mönnum til vegar hvað varðar framtíðina. Það hlýtur síðan að verða að mótast í umhvrn. og í þeim stofnunum sem undir það heyra. Forustan um þetta málefni yrði sjálfsagt meira og minna í höndum Náttúrufræðistofnunar og Skipulagsstofnunar og hinnar nýju Umhverfisstofnunar sem tekur til starfa um áramótin.

Ég hefði talið við hæfi að hæstv. umhvrh. hefði verið við þessa umræðu. Ég sé að hv. formaður umhvn. er hér ekki heldur. En hv. varaformaður umhvn. er í salnum og geri ég ráð fyrir því að hann láti í sér heyra hvaða augum hann lítur þessa tillögu.

Eins og ég sagði áðan er full ástæða til þess að fara yfir þessi mál. Þarna eru á ferðinni verkefni fyrir þessar stofnanir sem ég taldi upp áðan ásamt náttúrustofunum og öðrum aðilum sem koma að þessum málum úti um landið. Þetta er ekki eitthvað sem gerist kannski á augabragði. Auðvitað verður til aðgerðaáætlun sem ráðuneytið ber ábyrgð á og þarf að sjá til þess að verði til peningar í og það þarf auðvitað að sjá yfir allt málið hvað varðar þá endurnýjun sem þarf að verða á þeim gögnum sem hér um ræðir. Allt er þetta hluti af þessu máli. Þetta er grunnur sem þarf að vera stöðugt í endurskoðun. En upphaflega þurfa menn að átta sig á hvaða verkefni þeir ætla sér þarna í í heildina og hver kostnaðurinn á að verða. Ég tel að hægt sé að gera mikið með því að notafæra sér þá þekkingu og aðstöðu sem er til staðar hjá þeim stofnunum sem heyra undir umhvrn. og ég hef hér verið að telja upp. Það er algerlega óásættanlegt að verkkaupar eins og Landsvirkjun og aðrir slíkir keyri áfram verkefni eins og þau sem hér hafa verið nefnd í umræðunni og að vísindamennirnir og stofnanirnar sem eiga hlut að máli séu í raun komin í hlutverk, hvað á maður að segja, einhvers konar verktaka hjá einhverjum sem kaupir af þeim vinnu.

Sjálfstæði þeirra sem fjalla um mál af þessu tagi er bráðnauðsynlegt og auðvitað verða ákvarðanir, gögn og verkefni sem eru unnin vegna umhverfisins ekki eins áreiðanleg og þau þyrftu að vera ef vísindamennirnir og stofnanirnar sem um er að ræða eru í þessu hlutverki verktakans hjá þeim sem kaupir vinnuna. Grunngögn eins og þau sem hér er verið að ræða þurfa að vera til staðar. Ekki er þar með sagt að það sé ekki eðlilegt að þeir sem þurfa síðan að nýta þau greiði fyrir þau þegar þar að kemur. Það mun nýtast þeim sem þurfa að fara í framkvæmdir mjög vel að hafa gögnin tiltæk þannig að ekki þurfi sífellt að byrja á því að óska eftir því við viðkomandi stofnanir og vísindamenn að búa til gögn í hendurnar á þeim sem hafa áhuga á því að hefja framkvæmdir. Einhver lágmarksgrunngögn þurfa auðvitað að vera til staðar.

Ég ætla ekki að halda því fram að hægt sé að búa til einhvers konar náttúrufarsbiblíu sem allt standi í. En tilraunin til þess að búa til gögn sem nýtast að fullu, vil ég meina, er mikilvæg. Menn eiga að undirbúa þennan grunn, a.m.k. til að byrja með, með það fyrir augum að hann geti nýst sem allra flestum, sveitarfélögum, framkvæmdaraðilum og þeim sem vilja kynna sér náttúrufarið í landinu til þess að ræða um það í þeirri opnu umræðu sem þarf alltaf að vera um náttúru Íslands og umhverfismál. Ég tel að þetta mál sé mjög mikilvægt. Ég mun taka þátt í að vinna að því í nefndinni og vona sannarlega að út úr því komi það að þetta verði samþykkt og að menn hafi víðsýni til þess að taka við tillögum frá öðrum eins og þeirri sem hér er verið að gera tilraun til að setja fram.