Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:14:30 (1032)

2002-11-05 14:14:30# 128. lþ. 22.7 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:14]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil alls ekki væna einn eða neinn framkvæmdaraðila um ófagleg vinnubrögð. Ég vek einungis athygli á því, herra forseti, að slík umræða hefur verið í gangi í samfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar að meiri líkur séu á að fagleg vinnubrögð og vísindaleg fyrst og fremst séu viðhöfð ef viðkomandi vísindamaður er ekki að vinna fyrir framkvæmdaraðila sem hefur mikla hagsmuni af einhverri tiltekinni niðurstöðu. Ég ætla ekki að leggja neitt mat á fullyrðingar um að slíkt hafi gerst.

Varðandi það hverjir mundu gera þetta þá er gert ráð fyrir því í greinargerð að kortlagningin verði framkvæmd í samvinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landmælinga Íslands og að hún felist annars vegar í grófri kortlagningu sem verði hrint af stað strax, en samhliða verði hrint af stað nákvæmari kortlagningu sem felist að stórum hluta í sannprófun á fyrirliggjandi gögnum, sem hv. þm. vakti athygli á að væru kannski til um ákveðin svæði, og samræmingu þeirra miklu upplýsinga sem þegar liggja fyrir á víð og dreif hjá hinum ýmsu vísindastofnunum. Að hluta til fælist því þessi vinna í því að safna saman gögnum sem þegar eru til og samræma þau.

Varðandi kostnaðinn eru þetta eru þær tölur sem ég hef heyrt nefndar. 10--20 millj. árlega mundu nægja til þess að hrinda þessari vinnu af stað. Ef í ljós kæmi í hv. umhvn. við nánari skoðun áður en tillagan yrði hugsanlega samþykkt að þetta væri miklu dýrara mundi ég leggja það til að einstök svæði yrðu tekin fyrir. Þá yrði farið í þetta á lengri tíma. Ég held, herra forseti, að þessi vinna muni skila okkur töluverðum fjármunum, samfélaginu öllu og líka einstökum framkvæmdaraðilum seinna meir, þ.e. spara mikla fjármuni. Og af því að hv. þm. nefndi umhverfismat --- hann nefndi hundruð milljóna í tengslum við eitt umhverfismat --- þá erum við hér að sjálfsögðu bara að tala um grunnrannsóknirnar.