Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:16:44 (1033)

2002-11-05 14:16:44# 128. lþ. 22.7 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki séð að við þurfum að taka neinn kostnað af framkvæmdaraðila. Hann á að gera þessar rannsóknir. Hann á að skila þeim samkvæmt lögum og á að borga þær. Það er talið gott að framkvæmdaraðili sjái um þetta vegna þess að hann þarf líka að vinna eftir þessu þegar framkvæmdin er komin á koppinn. Framkvæmdaraðili á að sjá um að farið sé eftir þeim reglum og lögum sem sett eru um þessa framkvæmd varðandi verndun umhverfis, mótvægisaðgerðir, varnaraðgerðir o.s.frv. Þess vegna er talið mikilvægt að framkvæmdaraðilinn taki á sig þennan kostnað, sjái um skipulagið og sé svo ábyrgur fyrir því þegar verkinu er lokið.

Ég ætla ekki að segja mikið fleira um þetta. Ég held að allir séu sammála um að menn eigi að vera jákvæðir fyrir öllu því sem getur leitt til betri vegar í þjóðfélagi okkar. Ef þetta getur leitt til þess eftir skoðun í nefndinni mun ég að sjálfsögðu vinna að því.