Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:31:10 (1041)

2002-11-05 14:31:10# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Sú tillaga sem ég mæli fyrir um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum er flutt af þeim sem hér stendur ásamt hv. þm. Gísla S. Einarssyni og Karli V. Matthíassyni.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir Alþingi aðgerðaáætlun sem hafi það að markmiði að draga úr fyrirsjáanlegu ójafnvægi í byggðamálum.``

Á síðustu missirum hafa horfur í byggðamálum breyst verulega. Ástæða er til að gera ráð fyrir að fyrirætlanir um mestu framkvæmdir Íslandssögunnar í orku- og iðnaðarmálum verði að veruleika á Austfjörðum. Gangi þær eftir verða þar gífurlegar framkvæmdir sem standa í mörg ár. Þær munu hafa í för með sér aðra uppbyggingu í tengslum við búsetu og þjónustu við atvinnustarfsemina sem þar verður.

Jafnframt þessu liggja fyrir ákvarðanir stjórnvalda um að gerð þriggja jarðganga á Norðausturlandi verði boðin út í einu lagi.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að í byggðaáætlun sem samþykkt var á liðnu vori var aðaláhersla lögð á að styrkja Akureyri sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

Það yrði fagnaðarefni ef hillti undir betri tíma á þeim hluta landsins, þ.e. austurhluta landsins. Hins vegar hlýtur það að vera umhugsunarefni hversu þær fyrirætlanir og áætlanir sem hér um ræðir, og allar frá stjórnvöldum komnar, deilast ójafnt niður á landið. Það er veruleg hætta á því, ef fram fer sem horfir, að næstu ár verði öðrum svæðum í dreifbýlinu mjög erfið nema gripið verði til aðgerða til að draga úr því ójafnvægi sem í stefnir. Stjórnvöld bera alla ábyrgð í þessu efni vegna þess að hinar miklu framkvæmdir sem standa fyrir dyrum eru fyrir atbeina þeirra. Þörf fyrir byggðaaðgerðir myndast vegna ójafnvægis milli byggðarlaga og landsvæða. Stjórnvöld þurfa því að hafa heildaráhrif aðgerða í huga þegar þær eru ákveðnar. Það hefur augljóslega ekki verið gert nú. Þess vegna er þörf á að endurskoða tímasetningu framkvæmda og aðrar fyrirætlanir sem geta haft jákvæð áhrif á búsetu og atvinnulíf annars staðar en á vaxtarsvæðunum sem njóta munu þeirra umfangsmiklu fyrirætlana sem fram undan eru. Í ljósi breyttra aðstæðna þarf að bregðast við og taka ákvarðanir sem koma öðrum landsvæðum til góða.

Þar væri nærtækast að skoða hvort unnt sé og rétt að flýta framkvæmdum í samgöngumálum, sérstaklega þeim sem hafnar eru eða mögulegt er að hefja án mikils fyrirvara.

Sérstakt átak til að auka möguleika til framhaldsmenntunar og að styrkja menntun í dreifbýli væri sjálfsagður hluti slíkra fyrirbyggjandi aðgerða.

Aflétta þarf höftum á atvinnufrelsi manna í sjávarbyggðum sem byggja atvinnulíf sitt nánast alfarið á útgerð og fiskvinnslu þannig að þær geti aftur farið að njóta nálægðarinnar við gjöful fiskimið.

Það er ekki sjálfsagt mál að allir þeir gríðarlegu fjármunir sem nú stefnir í að fáist fyrir sölu ríkiseigna fari í samgöngumannvirki á einu landsvæði. Þá má líka nota annars staðar og þá má ekki síður nota í menntamál en samgöngumál eða önnur þjóðþrifamál sem gætu komið öðrum landsvæðum til góða.

Nú þarf að bregðast við af myndugleik og verulegum krafti til að ójafnvægi milli landsvæða í dreifbýli skapi ekki nýjan vanda í byggðarlögum sem hafa hann nógan fyrir. Mótvægisaðgerðir eru þess vegna bráðnauðsynlegar og ákvarðanir um þær þarf að taka strax.

Fjölmargt er hægt að gera til að sigla fyrir þau sker sem auðsjáanlega eru núna á siglingarleiðinni. Í tengslum við fjárlög mætti t.d. Alþingi hafa í huga að fjölmörg verkefni á þeim landsvæðum sem ég nefndi bíða og hafa ekki fengið fjármuni til framgangs.

Til eru áætlanir t.d. eins og byggðaáætlun Vestfirðinga. Í þeirri áætlun er margt sem mætti skoða í tengslum við það að reyna að koma í veg fyrir að ójafnvægi myndist í byggðamálum.

Mörg verkefni eru í gangi í samgöngumálunum. Það mætti t.d. flýta Þverárfjallsveginum. Einnig mætti skoða að flýta framkvæmdum til þess að tengja Vestfirði betur við aðra hluta landsins.

Miklar fyrirætlanir eru uppi í menntamálum sem ekki hafa fengið brautargengi vegna þess að ekki eru til peningar í þau. En það eru til nógir peningar miðað við það sem sagt hefur verið um framkvæmdir sem framkvæma á fyrir sölu ríkiseigna.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra er komin hér og ég vona að hún hafi heyrt framsögu mína, vegna þess að mér finnst mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hvort hún telji ekki að að horfa þurfi til annarra hluta landsins í ljósi þeirra gífurlegu framkvæmda sem fram undan eru á austurhluta þess.

Vel kann að vera að einhverjum finnist að þessi þáltill. sé flutt vegna þess að kosningar nálgast og verið er að breyta kjördæmaskipaninni og það er þannig. Auðvitað. Við sem erum hér á hv. Alþingi verðum að horfast í augu við að búið er að gera það að hlutverki þeirra sem kosnir verða til þings í næstu kosningum að hugsa um þessi landsvæði samkvæmt því fyrirkomulagi sem hefur verið ákveðið hvað varðar kjördæmin. Norðvesturkjördæmi er einfaldlega sá hluti landsins sem að langmestum hluta mun verða fyrir því sem ég vil kalla ójafnvægi í byggðamálum sem kemur til með að stafa af þeim gífurlegu framkvæmdum fyrir austan. Og ábyrgð stjórnvalda hvað þetta varðar er þess vegna ákaflega mikil.

Ég vil endurtaka að ég er á engan hátt að setja út á þær framkvæmdir eða að leggja til að þeim verði frestað eða eitt eða neitt í þá áttina. Ég er eingöngu að fara fram á það að menn skoði það núna vegna þess að nú er svigrúm til þess í vetur og þangað til framkvæmdir hefjast að fullu fyrir austan, að reyna að koma í veg fyrir fyrirsjáanleg vandamál sem geta orðið annars staðar.

Ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég áttaði mig á hvers konar staða væri að koma upp, þá hugsaði ég: Hvar hafa þeir eiginlega verið sem áttu að passa þetta? Hvernig stendur á því að ráðherrar í ríkisstjórn sem frá þessu svæði eru hafa ekki séð til þess að einnig verði litið til annarra landsvæða? Hvernig stendur á því að við stöndum allt í einu frammi fyrir því að allar framkvæmdir sem ríkið stendur fyrir í rauninni og skipta einhverju máli úti á landsbyggðinni eru bókstaflega að fara af stað á sama svæði landsins?

Nú er það ekki þannig að ég muni ekki eftir því að líka er verið að tala um að stækka álverið í Hvalfirði. En það vita auðvitað allir sem hér eru í sölum Alþingis að þó að það álver stækki munu áhrif af þeim framkvæmdum ekki ná mjög langt út fyrir Borgarfjörðinn.

Þess vegna er ástæða fyrir því sem hér hefur verið gert, þ.e. að leggja til að ríkisstjórnin undirbúi aðgerðaáætlun sem hafi það að markmiði að draga úr þessu fyrirsjáanlega ójafnvægi.

Ég er svolítið spenntur að bíða eftir að heyra viðbrögð hæstv. iðnrh., hæstv. byggðamálaráðherra, vegna þess að auðvitað ber hæstv. ráðherra ábyrgð á þessum málum. Hún ber auðvitað ábyrgð sem þingmaður úr sínu kjördæmi, en hún ber ábyrgð sem byggðamálaráðherra á þróuninni um allt land. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa áhyggjur af því eins og við sem flytjum þessa tillögu, að það geti orðið býsna erfitt fyrir þau landsvæði sem hér hafa nú helst verið nefnd, en ég tek fram að þau eru auðvitað fleiri, það eru auðvitað fleiri svæði á landinu sem munu ekki njóta þeirrar spennu sem verður vegna framkvæmda fyrir austan, bæði í því kjördæmi og líka hugsanlega í Suðurlandskjördæmi, en ég hef enga sérstaka úttekt á þessu. Ég hef bara þá tilfinningu að þarna þurfi menn virkilega að skoða sig um.

Ég tel þess vegna að hæstv. ráðherra eigi að segja okkur hér hvaða hugsanir bærast með henni hvað þetta varðar, hvernig megi koma í veg fyrir að þessi mikla spenna sem er þarna fram undan verði til þess að samkeppnisaðstaða annarra hluta landsins versni til þeirra muna að þar verði enn þá erfiðara að halda fólkinu í byggðinni og fólksfækkunin muni jafnvel enn þá aukast frá því sem nú er.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri hæstv. forseti, en vona sannarlega að við fáum tækifæri til að skoða tillögur frá hæstv. ráðherra. Það er af nógu að taka. Ég nefndi áðan tillögur Vestfirðinga, um áætlanir þar. Tillögur Vestlendinga eru til um aðgerðir í menntamálum. Til eru alls konar tillögur um aðgerðir hvað varðar uppbyggingu iðnaðar og auðvitað óskirnar um bættar samgöngur sem alls staðar svífa yfir vötnunum. Það er mjög margt sem hægt er að gera ef menn hafa mikla peninga milli handanna eins og hæstv. ríkisstjórn virðist hafa núna.