Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:43:35 (1042)

2002-11-05 14:43:35# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa tillögu og tel að hún sé í raun ágæt og hér munu eflaust skapast umræður í framhaldi af framsöguræðu hv. þm.

Ég freistast til að minna á í þessu sambandi að hv. þm. er nýbúinn að senda frá sér tillögu ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar þar sem á að koma í veg fyrir alla þrönga sérhagsmuni, eftir því sem talsmaður tillögunnar lét koma fram í sjónvarpsviðtali á sunnudagskvöldið.

Ég er ekki að tala um að hv. þm. hafi talað fyrir þröngum sérhagsmunum, en hins vegar finnst mér að sá tónn sé í málflutningi hans að hann vilji ekki horfa jákvæðum augum á það sem vonandi stendur fyrir dyrum á Austurlandi, sem mun breyta mjög þróun byggðar í landinu, ég held að það sé nokkuð ljóst.

Hann hefur ekki mörg orð um að byggt var mikið álver í Hvalfirði og það er ekki bara að það eigi að stækka það, að uppi séu áform um að stækka það, það var byggt upp fyrir örfáum árum. En það var ekkert auðvelt verk að fá það í gegn. Forvera mínum, Finni Ingólfssyni, voru afhent mótmæli undir lögregluvernd á Arnarhóli vegna þess máls. En engu að síður varð það að veruleika. Og þar er myndarlegur vinnustaður sem við vonum svo sannarlega að verði hægt að stækka enn frekar og það mun hafa áhrif langt út fyrir Borgarfjörð vil ég meina.

En ég tek hins vegar undir það og ég vil segja að í sambandi við Vestfirði, að ef af stórframkvæmdum verður fyrir austan og við erum búin að ákveða að Akureyri verði þungamiðja, þá finnst mér að Vestfirðingar þurfi virkilega að fá bót sinna mála og ég mun beita mér fyrir því.