Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:54:16 (1047)

2002-11-05 14:54:16# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að létta höftum á atvinnufrelsi af landsbyggðafólki eru auðvitað tillögur okkar í sjávarútvegsmálum. Menn hafa ekki jafnræði til að nýta auðlindina sem hefur orðið til þess að fjölmörg sjávarútvegspláss eru að koðna niður og deyja út, starfsemi þar og útgerð, þrátt fyrir að þau séu vel staðsett við góð og gjöful fiskimið. Á meðan þetta kerfi er við lýði munu þessi byggðarlög ekki eiga möguleika til þess að lifa inn í framtíðina og eru dæmd til þess að dragast upp og deyja út.

Einkavæðingarpeningarnir. Já, ég tel að við eigum að hafa skoðun á því hvað eigi að gera við þá, jafnvel þótt sum okkar hafi kannski haft aðra skoðun á því hvernig ætti að standa að einkavæðingu. Það er alveg ljóst að þessir fjármunir verða nýtilegir í höndum þeirra sem stjórna í landinu. Það er búið að taka ákvörðun um að nota þá til framkvæmda í jarðgangagerð á Austurlandi. Ég tel enga goðgá að skoða það líka að þessir peningar verði notaðir í framkvæmdir annars staðar á landinu. Ég tel það þvert á móti mjög eðlilegt.

Og einmitt í þeirri stöðu sem nú er komin upp þar sem stefnir í ójafnvægi í byggðamálum vegna hinna miklu framkvæmda sem verða á Austurlandi hljóta menn að horfa til þessara fjármuna til þess að leysa úr ýmsum brýnum verkefnum í öðrum hlutum landsins og með því koma í veg fyrir vandamálin.