Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:12:35 (1053)

2002-11-05 15:12:35# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), PBj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um vændisiðnað í Evrópu og svokallað mansal, sem er í raun verslun með konur. Hefur þessari verslun verið líkt við nútímaþrælasölu. Talið er að glæpasamtök þéni um 7 millj. bandaríkjadala á mansali árlega. Þau hafa komið sér upp tengslaneti á netinu og ná þar til viðskiptavina. Líkur eru á að höndlað sé með allt að 1 milljón kvenna og barna á þennan hátt. Interpol telur fjöldann vera um 120 þúsund innan ESB.

Ísland hefur ekki verið undanskilið í þessari umræðu. Fjöldi stúlkna hefur komið hingað, m.a. frá Eystrasaltslöndum, til að vinna á veitingahúsum undir ýmsu yfirskyni. Það er samt vitað mál að margar þeirra lenda á hálum ís og eru jafnvel leiddar þangað. Um 370 stúlkur fá atvinnuleyfi hér á landi á hverju ári til þessarar iðju. Þær eru í raun miklu fleiri því stúlkur frá ESB-löndum þurfa ekki atvinnuleyfi til að starfa hér á landi. Við þurfum að bregðast við þessum vanda. Hið nýja bann við einkadansi í Reykjavík, sem tók gildi 1. júlí 2002, virðist reyndar hafa haft mikil áhrif á starfsemi svokallaðra nektarstaða í Reykjavík. Staðir sem buðu upp á einkadans hafa verið að flytjast til nágrannasveitarfélaga eða leggja upp laupana.

Aukinni neyslu fíkniefna fylgir aukin neyð og er afleiðingin því miður oft það sem kallað hefur verið nauðarvændi. Ungt fólk sem er háð vímuefnum verður afar berskjaldað gagnvart vændi, og grípur til þess í tilraun til að fjármagna neyslu sína og draga fram lífið. Hér á landi er hópur fólks sem stundar vændi til að verða sér úti um peninga, vímuefni, húsaskjól og mat, og annar hópur sem stundar skipulegt vændi. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við.

Herra forseti. Það er brýnt að við ákveðum hér á Íslandi hvaða afstöðu við tökum til vændis yfirleitt og hvernig stjórnvöld geta skipulagt markvissar aðgerðir gegn þróuninni sem lýst hefur verið í dag.