Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:17:06 (1055)

2002-11-05 15:17:06# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Vændi er til staðar þótt í litlum mæli sé. Það er til staðar hér á landi hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Vændi er ekki orsök heldur afleiðing og þá oftast afleiðing fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar.

Það hefur verið umræða um að lögleiða vændi hér á landi eins og annars staðar. Helsti rökstuðningurinn með þessari tillögu var sá að sá sem selur vændisþjónustuna er oftast fórnarlamb sem þarfnast hjálpar en á ekki að þurfa að sæta refsingu. Þetta er auðvitað rökstuðningur sem vert er að skoða. En á hinn bóginn hafa margir spurt hvaða skilaboð við séum að senda ef við viljum lögleiða vændi. Þótt við vitum að unglingar drekki þá færum við ekki áfengiskaupaaldurinn niður í 14 eða 16 ár. Við refsum þeim ekki heldur reynum að styðja þá til betra lífs, sem sagt: Ekki gera vændi refsivert.

En það má líka velta því fyrir sér hvernig þetta lítur út frá vinnu- og skattalöggjöf. Þótt það kunni að virka nokkuð skondið, herra forseti, þá er þetta einfaldlega löggjöf sem ætti að snerta vændið. Samkvæmt gildandi lögum er refsivert að stunda vændi í framfærsluskyni, en það er í lagi svona einu sinni og einu sinni.

Það er fátt um svör, meira um fliss, þegar hringt er í skattstjóra og beðið um leiðbeiningar hvar eigi að setja þessar aukatekjur, sem eru ekki til framfærslu, á skýrsluna. Og hvað mega þessar aukatekjur vera háar, tíu þúsund kall, tuttugu þúsund kall, fimmtíu þúsund kall? Hvar dregur skatturinn mörkin?

Hvað varðar þriðja manninn hins vegar eða ,,pimpinn`` sem hér á landi er oftast eiturlyfjasali þá hafa til að mynda Bretar farið þá leið að taka á þessum mönnum í gegnum skattkerfið því oftast eru þetta menn sem berast mikið á en hafa auða skattskýrslu. Á þessum aðilum þarf að taka.

Herra forseti. Hin eina algilda auðsjáanlega leið til lausnar þessum vændismálum er ekki til staðar. Aukið frelsi er ekki endilega rétta leiðin í þessum efnum því það má spyrja: Frelsi hvers er verið að vernda? Ein leiðin gæti þó verið sú að gera vændið ekki refsivert án þess að lögleiða það. Einnig er hugsanlegt að gera kaupendaþáttinn refsiverðan. Vændi er þó að mínu mati fyrst og fremst félagslegt vandamál. Við þurfum að nálgast þetta mál á opinskáan og fordómalausan hátt, auka umræðu, forvarnir og fræðslu.