Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:24:07 (1058)

2002-11-05 15:24:07# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), SoG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Soffía Gísladóttir:

Herra forseti. Hér ræðum við þann hluta undirheima sem flokkast undir vændi en það er um leið nátengt annarri undirheimastarfsemi, svo sem ólöglegum fíkniefnum.

Vændi hefur talsvert verið í umræðunni undanfarin missiri og tengist það þeirri vinnu sem hæstv. dómsmrh. hefur staðið fyrir með það að markmiði að greina vandann og leita leiða til úrbóta. Það má hrósa hæstv. dómsmrh. fyrir frumkvæði sem hún hefur sýnt í þessu máli sem hefur orðið til þess að fróðleikur okkar á málinu hefur aukist og tekist hefur að sundurgreina alvarleika málsins.

Herra forseti. En það hefur ekki einungis verið tekið á umræðunni um vændi heldur hefur einnig verið tekið á klámi og það endurskilgreint í klám annars vegar og klám tengt grófu ofbeldi hins vegar, en þessi tvö hugtök eru nátengd.

Niðurstaða nefndar þeirrar sem hæstv. dómsmrh. skipaði til þess að bregðast við tveimur fyrri skýrslum um málið var m.a. sú að víkja skuli frá því að refsivert sé að stunda vændi í framfærsluskyni. Þar er m.a. tekið mið af lagaumhverfi annarra landa, annarra Norðurlanda, og eins er stuðst við þann rökstuðning að auðveldara verði að ná til þeirra sem stunda slíka starfsemi, með aðstoð að leiðarljósi. En það er mergurinn málsins, að aðstoða fólk í neyð.

Mikill meiri hluti þeirra sem stundar vændi eru fórnarlömb fíkniefna, kynferðislegrar misnotkunar eða annarra þátta og þurfa því aðstoð til að komast úr vandanum og hefja nýtt og betra líf. Þessa einstaklinga skortir oft tilgang með lífinu. Þeir eru með brotna sjálfsmynd og eru fastir í viðjum vændis. En við þurfum fyrst og fremst í þessari umræðu að beita okkur fyrir forvörnum á þessu sviði og miða að því að fækka þeim sem á nokkurn hátt og nokkurn tíma þurfa að stunda vændi sér til viðurværis.

Herra forseti. Með þeirri vinnu sem hefur verið unnin á undanförnum missirum í greiningu á vændi stigum við varlega í rétta átt með það að leiðarljósi að styðja við bakið á fórnarlömbum, en um leið bætum við þær girðingar sem koma í veg fyrir að vændi þróist í undirheimum.