Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:37:30 (1062)

2002-11-05 15:37:30# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Í byggðamálunum blasa við mörg verkefni, enda ber þau oft á góma í hv. Alþingi. Hér er lögð fram till. til þál. um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum og eru flutningsmenn tillögunnar hv. þm. Jóhann Ársælsson, Gísli S. Einarsson og sá sem hér stendur.

Í þáltill. er bent á að fyrir dyrum stendur mjög mikil aðgerð í atvinnumálum í Norðausturkjördæminu og fyrirsjáanlegt er að það geti haft ákveðin áhrif á aðra landshluta ef allur kraftur atvinnulífsins í landinu verður settur þangað með miklu afli. Þess vegna er nauðsynlegt að huga að því hvaða áhrif það hefur þegar þær miklu framkvæmdir fara í gang, sem ég tel vera mjög jákvæðar því að ástandið hefur ekki verið beysið fyrir austan, enda hafa Austfirðingar gert miklar kröfur um að hlúð sé að atvinnulífinu þar og flestir þeirra hafa verið mjög ánægðir yfir því að fá það sem samþykkt hefur verið.

En hvernig blasir þetta við á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi vestra, svo talað sé um þessi þrjú gömlu kjördæmi? Því miður hefur það verið þannig að fólki hefur fækkað, því hefur fækkað á Vestfjörðum, og ég tel eina ástæðuna fyrir því vera þá að atvinnulífið er ekki nægjanlega fjölbreytt og atvinnulífið er ekki nógu kröftugt og öflugt. Við þurfum að gefa gaum að því.

Ef við hugsum t.d. um menntamálin, þá þarf að efla framhaldsskólana. Það er reyndar mjög góður framhaldsskóli á Ísafirði, Akranesi og Sauðárkróki. En gerð var samþykkt ekki alls fyrir löngu hjá sveitarstjórnarmönnum á Snæfellsnesi um að stofnaður yrði framhaldsskóli á Vesturlandi, í Grundarfirði á Snæfellsnesi. En því miður hefur sú hugmynd ekki fengið nógu góðan hljómgrunn hjá yfirvöldum menntamála í landinu. En þetta er mikið byggðamál fyrir allt Snæfellsnes að framhaldsskóli komi í Grundarfjörð. Það er einnig mikið byggðamál að drifið sé í að klára að brúa Kolgrafarfjörðinn þannig að samgöngur á milli þessara staða á Snæfellsnesinu séu þannig að hægt sé að hafa þarna skóla, framhaldsskóla sem allir nemendur geti komið til að morgni og farið heim til sín að kvöldi. Það er það sem vakir fyrir þeim sem hafa beðið um að þessum skóla yrði komið á laggirnar.

Hið sama gildir náttúrlega líka um Vesturbyggð. Þar þarf að hlúa vel að framhaldsskóla og framhaldsskólamenntun. Þetta er hægt að gera með fjarnámi og það er hægt að leggja töluvert fjármagn í það til þess að börnin, unglingarnir sem eru búnir með 10. bekkinn þurfi ekki að fara strax að heiman. Börn eru núna börn allt til 18 ára aldurs samkvæmt lögum. Eitt grundvallaratriðið í byggðamálum er að menntun sé til staðar. Og sú starfsemi er mjög ánægjuleg sem fram fer á Bifröst og líka hjá Smára Haraldssyni á Ísafirði í sambandi við fjarnámið og háskólamenntunina sem þar er og það ágæta setur sem komið er upp þar. Þetta er allt mjög jákvætt en við þurfum að efla þessa hluti og koma menntuninni betur til byggðanna.

Samgöngur eru líka grundvallaratriði. Og þegar verið er að tala um að fara út í stórkostlegar samgöngur fyrir austan þá megum við heldur ekki gleyma því að það er ekki hægt að segja að það eigi bara að vera með miklar samgönguframkvæmdir í einum landshluta, það þarf að hafa vegagerðina víðar. Hér er ég t.d. að hugsa um að íbúar Vesturbyggðar eru stóran hluta ársins án þess að vera í samgöngum við hringveginn, góðum samgöngum, vegna þess að vegirnir eru það lélegir þar. Sú krafa hefur aukist og henni vex fiskur um hrygg, tillögunni um að heilsársvegur sé til Vesturbyggðar. Bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkti um daginn ályktun um að búið verði að malbika alla vegi til Ísafjarðar á næstu fimm árum. Þetta eru náttúrlega miklar aðgerðir en það verður að fara í slíka hluti ef þau svæði eiga að haldast í byggð. Þetta er bara einfaldlega nútíminn, hann gerir þessar kröfur, herra forseti.

Mér finnst það mjög áhugaverð tillaga þegar talað er um að leggja nýjan veg yfir Arnkötludal sem mundi bæta samgöngur á milli svæðanna úr Hólmavík og frá Ströndunum yfir í Reykhólasveitina. Það gæti skapað meiri samskipti þar á milli, bæði á sambandi við læknisþjónustu og í skólamálum og öðru. Þetta er eitt af því sem mætti huga vel að í tengslum við þá ágætu þáltill. sem við erum að fjalla hérna um.

Ég vil síðan benda á það, herra forseti, í tengslum við umræðuna um Orkubú Vestfjarða, að þó að það sé komið í eigu ríkisins þá hlýtur það náttúrlega að vera áhugasvið hæstv. byggðamálaráðherra og iðnrh. að starfsemi orkubúsins haldist sem öflugust vestur á fjörðum. Ég tel það vera siðferðilega skyldu að reynt sé að efla þá starfsemi sem þar fer fram en ekki fara að huga að því að leggja hana niður og láta hana undir eitthvert annað batterí því að um leið og það yrði gert mundu tapast þar störf, fólk sem hefur tækniþekkingu og annað sem skiptir náttúrlega gríðarlega miklu máli fyrir byggðina þarna.

Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna. Tími minn er búinn en hægt væri að segja svo margt fleira um þetta allt saman.