Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:45:50 (1063)

2002-11-05 15:45:50# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Löngum höfum við haft ugg af ójafnvægi í byggðum landsins. Sá uggur hefur aðallega snúið að því að landið væri að sporðreisast, eins og sagt var, fólk af landsbyggðinni væri allt að flytja á höfuðborgarsvæðið.

Sé litið á þau þrjú svæði sem fólki hefur verið að fjölga undanfarin 10 ár þá hefur fjölgað um 19% á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur fjölgað um 10% í nágrannabyggðum höfuðborgarsvæðisins og þar hafa eignir hækkað í verði, m.a. á Akranesi. Ég tel að þar hafi verið sett met, verð á eignum þar hækkaði um 81% á þessu tímabili. Á Akureyri hefur einnig fjölgað um 8,3%, sem sker sig úr á landsbyggðinni. Annars staðar hefur fækkað um 9%.

Ég vil fara yfir þessa þrjá liði í þeirri ágætu þáltill. sem hér er lögð fram og minnast fyrst á orku- og iðnaðarmál á Austurlandi. Á Austurlandi hefur verið viðvarandi fólksflótti. Það hefur fækkað um 489 íbúa í Fjarðabyggð síðastliðin 10 ár og fækkunin á Seyðisfirði, því blómlega bæjarfélagi, hefur verið um 146 íbúa á sama tíma. Ég hef bent á nauðsyn þess að verja eignir landsbyggðarfólks og vakið athygli á niðurstöðum úr svörum við spurningum félmrh. þar að lútandi. Ef Fjarðabyggð er skoðuð sérstaklega var fermetraverð á því svæði, þar sem fyrirhugaða stóriðju á að reisa, árið 1990 39.148 kr. Tíu árum seinna, árið 2000, var það 39.794 kr. Fermetrinn hækkar um 646 kr., ég segi og skrifa 646 kr. eða um 1,6%. Á sama tíma hækkaði verð fasteigna fólks á höfuðborgarsvæðinu um 66%. Austfirðinga vantar þannig tvo þriðju hluta til viðbótar við verð eigna sinna til að jafna þetta. Það hefði verið hægt með því að tryggja þar fjölbreyttari atvinnu og vista þar opinber störf. Ég fagna þess vegna því eins og aðrir að það hilli loks undir betri kosti í atvinnumálum Austurlands. Það stefnir þegar í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Austurlandi og þess má geta í framhjáhlaupi að fiskeldi, sem hafið er á Austurlandi, hefur þegar skilað því að tvö hús hafa verið byggð í Mjóafirði.

Varðandi jarðgangaþáttinn, sem hér er nefndur, er ljóst að Austfirðingar hafa lengi beðið eftir bættum samgöngum og jarðgöngum. Jarðgöng munu styrkja og styðja byggðir á Suðurfjörðum Austfjarða. Þar hefur verið mikil fólksfækkun. Í Búðahreppi einum, sem mun tengjast þessum jarðgöngum, hefur fækkað á síðustu 10 árum um 188 manns og í Fáskrúðsfjarðarhreppi um 29. Sömu sögu er að segja af Stöðvarhreppi, Breiðdalshreppi og Djúpavogshreppi.

Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar munu auðvelda allar samgöngur á Austfjörðum og stytta hringveginn. Jarðgöng á Austfjörðum munu gera svæðið að einu atvinnusvæði og jarðgöng á Austfjörðum munu styrkja og verja eignir Austfirðinga. Ef við lítum til jarðganga á norðanverðum Tröllaskaga, milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, munu þau á sama hátt auðvelda samgöngur, enda Lágheiðin erfiður vetrarvegur. Jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar munu stækka atvinnusvæðið, enda má benda á mikla samvinnu þar þegar á milli staða, t.d. á sjávarútvegssviðinu. Jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar munu styrkja og verja eignir fólks á Ólafsfirði og á Siglufirði og auka líkur á framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð sem brennur á íbúum þessa svæðis.

Þá vil ég, herra forseti, nefna eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins, sem er eitt af málum nýrrar byggðaáætlunar. Í byggðaáætlun segir að efling þessa svæðis muni hafa áhrif um allt Norðurland og áhrifanna muni jafnvel gæta á Austurlandi. Benda má á að heimamenn á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum eru nú farnir að tala um að samtengja þessi svæði betur með jarðgöngum undir Vaðlaheiði. Þarna er um stórt svæði að ræða.

Ég fagna öllu því sem hér er rakið en hv. flutningsmenn þessarar þáltill. hafa einnig áhyggjur. Ég vil taka undir það að ef allur kraftur fer í að byggja upp á þessu svæði svo horfi til verri vegar á svæðum sem eru veik fyrir þá er það ekki gott. Auðvitað ber að líta til þess.

Nokkur svæði á landinu eiga undir högg að sækja. Ég nefni t.d. Norðausturland. Þar kæmu betri samgöngur sér til góða fyrir Kópasker, Þórshöfn og Raufarhöfn. Vestfirðir eiga undir högg að sækja, Skaftafellssýslur líka og Norðurland vestra.

Ég vil vekja athygli á því sem hv. flutningsmenn benda á í þáltill. sinni. Þeir hvetja sérstaklega til að flýta samgönguframkvæmdum, styrkja framhaldsmenntun í dreifbýli. Þeir segja einnig, með leyfi forseta, orðrétt:

,,Aflétta þarf höftum á atvinnufrelsi manna í sjávarbyggðum sem byggja atvinnulíf sitt nánast alfarið á útgerð og fiskvinnslu þannig að þær geti aftur farið að njóta nálægðarinnar við gjöful fiskimið.``

Herra forseti. Ég tek undir anda þessarar þáltill. Það er nýtt vandamál fyrir okkur ef efling á landsbyggðinni fer að hafa áhrif á önnur svæði landsbyggðarinnar. Það er ákveðið fagnaðarefni ef svo er komið og þá breyting frá því sem við höfum búið við undanfarin 30--40 ár. En ég tek undir það sem hv. þm. hafa hér sett fram. Það þarf að fylgjast með þessu og ég treysti því að svo verði gert.