Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:52:49 (1064)

2002-11-05 15:52:49# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., PBj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar að leggja nokkur orð inn í þessa umræðu. Ég vil þakka flutningsmanni sérstaklega fyrir þessa till. til þál. sem er meira en tímabær.

Öllum er ljóst að ójafnvægið sem fjallað er um í greinargerð með þessari tillögu er fyrir hendi og það fer vaxandi og hefur reyndar farið vaxandi um langan tíma. Hv. flutningsmaður sagðist bíða eftir því að sjá hver viðbrögð ráðherrans við þessari tillögu væru. Ég tek undir það með honum. Ég verð að segja að mér finnast viðbrögð ráðherrans með eindæmum dræm. Hér er um að ræða málefni sem ég tel að öllum landsbyggðarþingmönnum, reyndar þingheimi öllum, eigi að koma verulega við og þeir eigi að láta sig miklu skipta.

Fram kemur að reynt hafi verið að efla ýmis svæði á landinu. Það hefur verið reynt að bregðast við þessu misvægi. Það er t.d. sérstaklega nefnt í greinargerð að aðaláherslan hafi verið lögð á að styrkja Akureyri sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Mér finnst ekki óeðlilegt að þar sé byrjað. Ég gleðst yfir þeirri þróun sem þar hefur orðið af ýmsum ástæðum. Þar vantar að vísu margt á enn þá, eins og þeim heimamönnum er vafalaust kunnugast um, einkum í atvinnumálum. En sú stefna sem tekin var fyrir allmörgum árum, að efla Akureyri sem menntabæ og menntasetur, hefur skilað árangri. Ég fagna því að sjálfsögðu ef unnið er að því að koma þar upp þessu mótvægi sem svo er nefnt.

Við þurfum reyndar að gera miklu meira. Ég veit að slík uppbygging getur ekki gengið ef með henni á að draga spón úr aski annarra sem þegar búa við meira ójafnvægi. Slíkt getur aldrei stýrt góðri lukku. Ég vona að sú leið verði ekki farin. Þó höfum við stundum á undanförnum vikum og mánuðum velt fyrir okkur ýmsu í því sambandi. Þar er náttúrlega nærtækast að taka Orkubú Vestfjarða sem mikil umræða hefur orðið um. Um það varð mikil umræða fyrir tveimur árum og reyndar æ síðan þegar Vestfirðingar seldu ríkinu þetta fyrirtæki sitt með það fyrir augum að það yrði áfram staðsett þar og sú þjónusta sem það veitti, þau störf sem það veitti yrðu áfram í byggðarlaginu. En það eru ýmsar blikur á lofti með það.

Lítum á Vestfirði, af því að hæstv. ráðherra gat um að taka þyrfti málefni Vestfirðinga sérstaklega fyrir. Ég þakka fyrir það. Ég tek undir það og fagna því. En ég vil vekja athygli á því að málefni Vestfirðinga er ekki alveg einstakt þó ástandið þar sé slæmt. Við skulum líta aðeins á nýja kjördæmaskipan, hið nýja Norðvesturkjördæmi. Það er ekki víst að þar sé allt miklu betra. Við getum dregið línu einhvers staðar frá Skaga og kannski norðan við Borgarnes, þá erum við komnir með jaðarbyggðir annars vegar og úthverfi borgarsvæða hins vegar, við hið nýja mótvægi. Það er gott að hafa það. En hitt er miklu stærra svæði, þetta jaðarsvæði sem myndast. Þar hafa vandamál verið viðvarandi. Þar vantar atvinnu og öll skilyrði til að halda uppi blómlegri byggð og mannlífi.

Ég ætla auðvitað ekki að fara leynt með að ég hef ákveðna skoðun á hluta þessa vanda. Ég er ekki að segja að það sé allur vandinn en hluti vandans er sá að einmitt á þessu svæði verður byggðin til af ákveðnum ástæðum, ekki af einhverri hendingu heldur vegna þess að sums staðar er hægt að vera með búfé eða landbúnað af ýmsu tagi og fólk hefur lifibrauð af því. Annars staðar höfðu menn atvinnu af því að sækja sjóinn. Allt þéttbýli á öllu svæðinu norðvestan línunnar sem ég nefndi áðan er byggt vegna nálægðar við sjóinn. Það var útgerðin sem þessar byggðir efldust af og hún stóð á bak við þær. Þetta er svona enn nema að því leyti að það er búið að hefta frelsi manna til að sækja sjóinn nema með ákveðnum skilyrðum yfirvalda. Þessi skilyrði eru þess eðlis að hægt er að hrifsa björgina frá þessum byggðum í einu vetfangi án þess að íbúarnir fái nokkru um það ráðið eða rönd við reist.

Óveiddur aflinn var sameign þeirra sem bjuggu á stöðunum, ekki með úthlutun eða mældur í tonnum heldur með heimildinni til að fá að sækja sjóinn, stunda lífsbjörg sína, fá að fara á hverjum morgni til fiskjar og draga í soðið eða leggja upp og verka. Veruleikinn er annar í dag. Æ færri stórútgerðir ráða ráðum sínum án tillits til þess sem þessi till. til þál. fjallar um. Þær eru ekkert að velta fyrir sér ójafnvægi í byggðamálum. Þær eru í rekstri til að ná hagnaði. Arðurinn skiptir þær meira máli en jafnvægi í byggðamálum. Um þetta væri hægt að halda býsna langa tölu.

Staðreyndin er hins vegar sú að smábátarnir, svo mikið sem LÍÚ hefur hamast á þeim, eru þó það sem eftir er. Mörg öfl vinna að því að rífa niður það sem enn er eftir. Ég vona að það takist ekki. En sem dæmi um það sem hefur gerst á allra síðustu árum má nefna að tvær fisktegundir hafa verið sérstaklega mikilvægar fyrir þetta svæði. Þær eru steinbítur og ýsa. Þessar tegundir eru allt í einu settar undir kvóta, ekki vegna þess að nokkur nauðsyn beri til þess eða vegna þess að nokkrar rannsóknir standi á bak við það heldur fyrst og fremst til að bregðast við nöldri stórútgerðarinnar um að smábátarnir séu að ríða þeim að fullu. Áður höfðu þeir ekki nýtt þessar heimildir í eigin veiðiskap nema fyrst og fremst til að breyta þeim í aðrar. Þetta hefur þýtt að atvinnutækifærum hefur fækkað um þúsundir vinnustunda, þúsundum tonna minna berst á land á Vestfjörðum og reyndar víðar á þessu svæði en áður var, bara með þessu eina lagaákvæði sem beitt var á þennan hátt.

Hér mætti líka ræða um samgöngur. Þær skipta geysilega miklu máli. Það hefur komið fram að samgöngur eru að segja má í ólestri á þessu svæði. Forseti landsins vakti athygli á því fyrir fimm, sex árum, en ég vil lýsa því yfir að Vestfjarðagöng, Hvalfjarðargöng og Gilsfjarðarbrú hafa skipt sköpum í mannlífi, fyrir atvinnutækifæri og búsetu á þessum svæðum. Þess vegna styð ég alla framkvæmd í þeim efnum, sem ég tel að séu landvarnir okkar Íslendinga.