Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:01:37 (1065)

2002-11-05 16:01:37# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Það var unun að hlýða á hv. þm. Pétur Bjarnason áðan og þakka ég hv. þingmanninum fyrir hans góðu ræðu. Hann talaði m.a. um mikilvægi smábátanna og hvað þeir hafa gert fyrir byggðirnar. Það er alveg ótrúlegt hvað sú starfsemi hefur átt undir högg að sækja sem þeir standa fyrir miðað við allt sem þeir hafa gert fyrir atvinnulífið í landinu, ekki síst á þeim stöðum sem við erum að tala um núna.

Ég vona að menn átti sig á því sem fyrst að kvótasetningin á ýsunni og steinbítnum verður afnumin. Það er gott innlegg í byggðamálin.

Það er alveg augljóst mál að búseta ræðst af tækifærum og atvinnumöguleikum á stöðunum. Ég man eftir því að þegar ég var yngri en ég er í dag, herra forseti, var fólk í hrönnum að fá sér lóðir úti á landi, var í hrönnum að byggja upp hús, ungt fólk sem ætlaði að eiga framtíð sína þar. Hvers vegna var fólk að fá sér lóðir og byggja hús? Einfaldlega vegna þess að það sá fín tækifæri fyrir sig. Það sá að það var næg vinna og nóg að gera, góðar tekjur. Síðan hefur þetta breyst og ástæðan fyrir því að þetta hefur breyst, herra forseti, er að mjög miklu leyti fiskveiðistjórnarkerfið í dag. Að vísu kemur það ekki allt eingöngu inn í þetta en það skiptir alveg gífurlega miklu máli. Það hefur haft alveg rosalega mikil áhrif þegar hver togarinn á fætur öðrum hefur farið úr byggðarlögunum. Ef ekki hefðu komið til þessir smábátar væri þetta bara undin ein, ekkert nema eitt stórt sár. Það er nokkurt sár en ef ekki hefðu komið til þessir smábátar væri allt gjörsamlega í rúst.

Landslag okkar er alveg stórkostlegt og í því stórkostleg fegurð, ekki síst á því svæði sem við erum að tala um. Mjög miklir möguleikar eru í ferðamennsku hér á landi. Þáttur hennar eykst og það er nauðsynlegt að hlúa að þessari atvinnugrein. Þó að hún sé búin að vera í nokkur ár er hún engu að síður ung og ég tel að það þurfi að styðja við hana. Það er hægt að hugsa sér fólk sem kemur til Íslands og á þessa staði, t.d. á Barðaströndina þar sem það horfir yfir Breiðafjörðinn, á jökulinn, sér nesið allt og þessa kyrrð sem þar er, Látrabjargið og alla þessa staði. Auðvitað er hægt að fá fleira ferðafólk til að koma þangað en þá þarf meiri styrkingu við þessa atvinnugrein. Það er hlutverk hins opinbera að koma inn í slíkt. Þó að sumir séu á þeirri skoðun að hið opinbera eigi ekkert að koma að atvinnulífinu er það bara rangt. Það er skylda samfélagsins að bæta þarna úr.

Það er ekki nema von, herra forseti, að þessi þáltill. sé borin hérna fram af okkur sem nefndir vorum áðan. Ég ítreka það sem sagt var líka áðan í sambandi við Orkubú Vestfjarða sem er með töluverða starfsemi, herra forseti. Þó að það sé orðið eign ríkisins tel ég ekki neina nauðsyn að breyta starfsemi þess, taka störf þaðan og flytja þau. Þó að einhver ný lög verði sett er ekkert sem segir að ríkið þurfi að færa þessa starfsemi til. Þvert á móti held ég að það eigi að efla hana og sérstaklega ætti það að gerast af því að þetta orkubú heyrir núna undir sama ráðuneyti og byggðamálin. Ég vænti þess, herra forseti, að hæstv. iðnrh. muni leggja þungt lóð á þá vogarskál að Orkubú Vestfjarða fái að vera áfram í þeirri starfsemi sem það er og jafnvel efla það.

Á síðasta þingi var samþykkt þáltill., herra forseti, þar sem einmitt var verið að tala um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum, að fara út í rannsóknir í tengslum við hana. Ég á von á því að þess muni sjá stað í fjárlögum, herra forseti, og að settir verði fjármunir í hana. Það mun einnig skipta miklu máli fyrir t.d. Náttúrustofu Vestfjarða að þetta verði gert. Svo getur niðurstaðan kannski orðið sú að þetta svæði þyki það mikil náttúruperla að ekki verði farið út í virkjun eða að einhverjar aðrar ástæður leyfi það ekki. En það er þó búið að samþykkja þessa þáltill. og ég geri ráð fyrir því, herra forseti, eins og ég sagði áðan að þess muni sjá stað í fjárlögunum.

Möguleikar þess svæðis sem þáltill. tekur til eru mjög miklir, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi, iðnaði og ferðamennsku. Til þess að hægt sé að nýta þá verða að koma raunhæfar aðgerðir sem byggja og efla áformin. Hér hefur verið lögð fram byggðaáætlun en í hana vantar mjög beinar og beinskeyttari tillögur, ég vildi t.d. sjá kræklingarækt í svona byggðaáætlun. Það væri gaman að sjá t.d. í fjárlagafrv. að það ætti að styðja við kræklingaræktina og það sem verið er að gera í henni. Þar er mjög lítil stuðningur. En það eru frumherjar þarna, menn sem hafa ekkert rosalega mikið af peningun en þeim mun meiri áhuga, náttúran er fyrir hendi og aðstæður allar og þeir vilja vinna þetta verk. Hvers vegna ekki að styðja við það og efla það og styrkja með kröftugri hætti en er? Það er ekki nóg að vera með einhver orð um byggðaáætlanir, um vegamál, um hitt og þetta og svo er því ekki fylgt eftir í fjárlögunum. Það er náttúrlega það sem skiptir máli þegar upp er staðið, herra forseti, það eru peningarnir sem skipta mestu máli. Það þarf að leggja þá fram úr sjóðum samfélagsins til að hægt sé að byggja upp og hafa landið í góðri byggð.