Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:17:52 (1067)

2002-11-05 16:17:52# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:17]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður tók sérstaklega fram og var nánast hissa að ég skyldi ekki hafa tekið þessari tillögu illa. (Gripið fram í: Þú tókst henni vel.) Ég vona að það sé ekki þannig að þingmenn almennt álíti að tillögum sé illa tekið. Ég efast ekki um það eitt augnablik að allt sem hér er lagt fram er vel meint og hugsað til að bæta samfélag okkar. Það er eins með þessa tillögu.

En það eru nokkur atriði sem komu fram sem ég vildi aðeins nefna. Sagt var að ekki væri nóg að hafa fögur orð og setja fagra hluti á blöð, það þyrfti náttúrlega að framkvæma. Það er nú mergurinn málsins að auðvitað þarf að framkvæma. Sú byggðaáætlun sem samþykkt var í vor er sá rammi sem við munum vinna eftir á næstu árum. Ég vil endurtaka það sem ég hef oft sagt áður að mér finnst þetta vera metnaðarfull tillaga. Hún er í 22 aðgerðaliðum af 24 ef ég man rétt, hugsuð fyrir landið allt þannig að almennt er tekið á málum á breiðum grundvelli.

Hins vegar er ein tillagan sú að styrkja Eyjafjarðarsvæðið og Akureyri sem er hugsað til þess að mynda mótvægi við höfuðborgarsvæðið en ekki hugsað til að veikja landsbyggðina. Mér finnst mjög mikilvægt að fók átti sig á og hafi skilning á því að ef sú uppbygging og styrking þess svæðis nær fram að ganga, þá ætti það ekki að vera á kostnað neins svæðis, nema þá hugsanlega höfuðborgarsvæðisins. Mér finnst einhvern veginn að þetta hafi ekki skilað sér nógu vel. Því miður hefur verið nokkuð gagnrýnt að þetta skuli hafa verið gert með þeim hætti og kannski er það bara eðlilegt. En engu að síður finnst mér mikilvægt að þetta komi fram einu sinni enn.

Það var spurt frekar út í það á hvern hátt ég teldi að rétt væri að nálgast málefni Vestfirðinga. Ég er ekki tilbúin að kveða upp úr um það á þessari stundu, en það sem ég meina er að ef verður af framkvæmdum á Austurlandi, stórframkvæmdum þar, þá finnst mér að full ástæða sé til að horfa sérstaklega til Vestfjarða. Engum blöðum er um það að fletta að það er erfitt í sambandi við byggðaþróun og þess vegna kæmi til greina að vinna sérstaka áætlun fyrir Vestfirðinga eins og þeir hafa sjálfir lagt mjög myndarlega drög að.

Það kom fram áðan að byggð verði til af ákveðnum ástæðum og var hv. þm. Pétur Bjarnason að tala um sjávarútvegsstefnuna. Það er alveg rétt að byggð verður til af ákveðnum ástæðum. En við skulum líka hafa það í huga ef við förum dálítið langt aftur í tímann, þá var það svo að aðalútgerðarstaður á Íslandi var Seltjarnarnes. Það hefur því átt sér stað gífurleg þróun í sambandi við þennan mikilvæga málaflokk og sú þróun mun halda áfram. Ýmsum ofbýður að það eru fá fyrirtækin sem fyrst og fremst sinna sjávarútvegi og eru í sjávarútvegi og fyrst og fremst sé hugsað um arðinn. Það er nokkuð til í því. Það er mikið hugsað um að sjávarútvegurinn sé arðbær og geti rekið sig og ekki er nokkur vafi á því að það sem gerir það að verkum að dregið hefur úr landsbyggðarflóttanum ef má nota það orð, að dregið hefur verulega úr flutningi fólks af landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins, er sú ástæða að sjávarútvegurinn gengur miklu betur. Það er gífurlega mikilvægt fyrir landsbyggðina að sjávarútvegurinn reki sig og hann sé rekinn með hagnaði. Þetta skilar sér í svo mörgu öðru.

Í sambandi við Orkubú Vestfjarða vil ég segja einu sinni enn að ekki stendur til að flytja Orkubú Vestfjarða neitt annað, enda er Orkubú Vestfjarða á Vestfjörðum. Það sem kom til greina og kemur enn til greina er að sameina það Rarik af því að svo vill til að ríkið á bæði þessi fyrirtæki 100%. Ekki er útséð um það hvernig þeim málum mun lykta eða hversu hratt verður farið í þau mál en þau eru í vinnslu og auðvitað verður Alþingi greint frá því þegar niðurstaða fæst en aldrei hefur staðið til að fækka þar störfum. Skrifað var undir ákveðið samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaga fyrir vestan þess efnis að frekar yrði reynt að fjölga störfum. Hins vegar gefur það augaleið að ef fyrirtækið verður sameinað öðru fyrirtæki, þá verða ekki tvær höfuðstöðvar heldur verða bara ein höfuðstöð og ég veit að það hefur verið viðkvæmt í umræðunni og hef fullan skilning á því.

Hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, kom fram að iðnrn. þyrfti að fara yfir það hvernig byggðaáætlun skilaði sér inn í fjárlagatillögur sem nú eru í vinnslu. Þannig verður haldið á málum í sambandi við byggðaáætlun og það er svo sem ekkert nýtt að þeir málaflokkar sem heyra undir aðra ráðherra en iðnrh. munu að sjálfsögðu fylgja sínum ráðuneytum og viðkomandi ráðherrar verða að fylgja eftir sínum málum. Ég hef enga yfirumsjón með því og hef ekkert boðvald yfir öðrum ráðherrum. Þeir verða að vinna eftir byggðaáætlun rétt eins og ég og ég trúi því að þeir geri það. En hins vegar hef ég lagt til að sérstök nefnd embættismanna verði starfandi sem muni halda utan um málið og þannig verði auðveldara að hafa yfirsýn. Ég hef lagt það til í ríkisstjórn að öll þau ráðuneyti sem áhuga hafa á og telja sig koma að byggðamálum tilnefni einstakling og sá hópur sem mundi síðan vinna saman gæti þá samræmt tillögur og haldið utan um málið fyrir hönd okkar ráðherranna. Ég held að mjög mikilvægt sé að hv. þingmenn átti sig á því að bara hluti af þessum málum er á ábyrgð iðnrh. þó að byggðaáætlun sé unnin af iðnrh.

En það er alveg rétt sem kom fram að iðnrh., eða ég sem hér stend, sem fer með þennan málaflokk ber vissulega mikla ábyrgð og ég geri mér alveg fulla grein fyrir því og það skal enginn efast um áhuga minn á því að reyna að bæta þarna úr.