Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:30:42 (1072)

2002-11-05 16:30:42# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., PBj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:30]

Pétur Bjarnason:

Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa sagt að viðbrögð væru dræm en ég fagna því sem hér kom fram. Ég skil það svo að ráðherra muni beita sér fyrir þessum málum, og það er vel.

Hæstv. ráðherra sagði að dregið hefði úr fólksflótta. Það liggur reyndar í hlutarins eðli að þegar árum og áratugum saman fækkar í landshlutum hlýtur einhvern tíma að draga úr því vegna þess að fólkið er ekki orðið það margt eftir. Við skulum ekki gleyma því. Samkvæmt nýlegum tölum eru Vestfirðingar komnir niður fyrir 8 þúsund. Þeir voru 7.912 um síðustu mánaðamót eða mánaðamótin þar áður. Fyrir 80--100 árum bjuggu á þessu svæði um 16% landsmanna.

Ég vil bara ítreka það að hæstv. ráðherra nefndi að grípa ætti til aðgerða fyrir Vestfirðinga, og ég tel að það ætti að vera víðar með aðgerðir. Ég legg þó áherslu á að draga ekki of lengi að hefjast handa. Þessara aðgerða er þörf, þeirra er þörf núna og því fyrr, þeim mun betra.