Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:41:36 (1082)

2002-11-05 16:41:36# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:41]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur að mörgu leyti verið góð. Það sem er mest um vert er að hér hefur komið fram skilningur á því að þessi tillaga sé eðlileg og það sé eðlilegt að bregðast við í þeim anda sem hún er lögð fram þó að ekki hafi verið mikið um svör frá hæstv. ráðherra um hvað hún vildi gera. Það þyrfti þó að gerast á næstunni. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að teknar verði ákvarðanir við fjárlagagerðina í vetur og að menn setjist strax yfir það hvernig eigi að standa að þessum málum til þess að ekki fari í óefni. Nema það sé þá þannig að menn trúi því ekki að af þessum framkvæmdum verði fyrir austan. Ég hef satt að segja staðið að þessari þáltill. í þeirri trú að það sé orðið ljóst að af þessum framkvæmdum verði og að við þurfum þess vegna að búa okkur undir þær afleiðingar sem verða auðvitað af þeim. Ég reikna með því að málið standi þannig þó að einhverjir láti eitthvað annað í veðrinu vaka þessa dagana.

Ég saknaði eins við þessa umræðu, þess að hér skyldu ekki vera viðstaddir og taka þátt þingmenn af norðvestursvæðinu. Þá er ég ekki bara að tala um óbreytta þingmenn, ég er að tala um ráðherra samgöngumála sem kannski hefur ekki getað verið hér vegna þess að nú er prófkjör í uppsiglingu. Það verður kannski að virða hæstv. ráðherra það til vorkunnar. Ekki var hér heldur hæstv. félmrh. sem er ekki í bili á leið í prófkjör, eftir því sem ég veit best. Ekki mætti heldur til umræðunnar hv. formaður þingflokks Framsfl. sem var þó í húsi og var lengi vel á þessu kjörtímabili formaður stjórnar Byggðastofnunar. Ég býst við að þessi mál hljóti að hafa brunnið á honum og hann hljóti aldeilis að hafa áhyggjur af því hvernig byggðum og fólki reiði af á þessu svæði.

Mér finnst að það hefði verið fróðlegt og gott að heyra frá þessum hv. þm. og ráðherrum hvernig þeir hyggjast taka á þessum málum eða hvort þeir hafi sömu áhyggjur af því sem gæti orðið eins og hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni. Auðvitað eru byggðamálin flókin og það er erfitt að gera sér grein fyrir því hver framtíðin verður. Mér finnst hins vegar að það liggi nokkuð í augum uppi að það muni hafa veruleg áhrif á þessum svæðum ef af öllum þeim framkvæmdum verður sem við höfum rætt hér í dag.

Byggðaáætlunin sem við samþykktum í vor hefur komið töluvert til umræðu og sú ákvörðun að leggja áherslu á Akureyri sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Gott og vel, ég hengi mig ekki í neitt orðalag. Ég held hins vegar að það sé nokkuð ljóst að með því að standa við að efla Akureyri á allan máta sem er bara hið besta mál þurfi menn að horfast í augu við það að afleiðingarnar af því geta aldrei orðið aðrar en þær að samkeppnisaðstaða annarra hluta landsins versnar við það. Þá þurfa menn bara að gera ráð fyrir því strax þannig að við því sé líka brugðist.

[16:45]

Ég er ekki þar með að segja að ég sé á móti því að efla Akureyri. Ég er bara að segja að það hafi þennan fylgifisk og við því þarf að bregðast eins og ég sagði.

Hæstv. ráðherra ræddi um sjávarútvegsmálin og sagði að hann væri aldeilis ekki á því að það mætti eitthvað eiga við fiskveiðistjórnarkerfið. Hann tók reyndar þannig til orða að ekki mætti kollvarpa því. Að vísu eru kannski einhverjir í sölum hv. Alþingis sem vilja nota orðið að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu um hugmyndir sínar um hvernig eigi að breyta því. Við í Samfylkingunni höfum ekki lagt til að því yrði kollvarpað. Við höfum hins vegar lagt til að gerð verði mjög mikil breyting hvað varðar einn þátt og hann snýr að eignarhaldi á veiðiheimildum. Það hefur út af fyrir sig ekkert að gera með fiskveiðistjórnarkerfið sem fiskveiðistjórnarkerfi heldur hefur það með eignarhaldið á veiðiheimildunum að gera og ef farið verður að okkar tillögum þá verður jafnræðið til þess að nýta auðlindina aftur til staðar. En svo er ekki í dag því allir vita það sem hafa viljað kynna sér málin að enginn getur stofnað til nýrrar útgerðar á Íslandi í dag vegna þess að stofnkostnaður við útgerð er sjö sinnum hærri en hann var áður en menn tóku upp þetta kerfi, þ.e. ef menn kaupa veiðiheimildir á fullu verði til þess. Þó að hæstv. ráðherra sé ánægður með að hagnaður sé í sjávarútvegi í dag og telji ástæðu þess að tilflutningur af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins hafi minnkað þá er ég á þeirri skoðun að þar geti verið á ferðinni svikalogn einfaldlega vegna þess að eignarhaldsfyrirkomulagið á veiðiheimildunum er nú komið á smábátaflotann. En til hvers hafa hv. þm. sem setið hafa á Alþingi notað smábátaflotann á undanförnum árum? Til þess að koma í veg fyrir að fjölmörg byggðarlög legðust gjörsamlega af. Menn hafa tekið nýjar ákvarðanir ár eftir ár sem hafa orðið til þess að hægt hefur verið að stofna til útgerðar smábáta án þess að borga þessar gífurlegu fjárhæðir fyrir aðgang að auðlindinni eins og þarf að gera í stóra kerfinu.

Hvers vegna skyldu menn hafa gert það? Af engri annarri ástæðu en þeirri að þeir sáu byggðahrunið fyrir. Hv. þm. hafa haldið opnu þessu gati á fiskveiðistjórnarkerfinu og það hefur komið í veg fyrir að mörg byggðarlög hafi lagst gjörsamlega í rúst. Þetta er vandinn og ég segi að hann kemur aftur. Það er búið að taka ákvarðanir um að koma eignarhaldinu á í smábátakerfinu og það er ekkert eftir nema dagakerfið. Afleiðingarnar af eignarhaldinu í smábátakerfinu munu líka orsaka samruna þar og því að menn munu ekki geta stofnað til nýrrar útgerðar. Það er bara einfaldlega ekki hægt. Þess vegna munu menn sjá fram á það á næstu árum að byggðarlögin, sem hafa aðeins geta rétt sig við vegna þess að möguleiki var að komast í útgerð án þess að borga þessar háu upphæðir, munu aftur lenda í vanda.

Hæstv. ráðherra tók, að mér fannst, skýrt undir það að farið yrði að vinna að byggðaáætlun Vestfjarða í tengslum við það að menn sæju fyrir endann á því að af þessum miklu framkvæmdum á Austurlandi yrði og þá yrði grunnurinn að þeirri vinnu sem Vestfirðingar hafa sjálfir lagt hafður verulega til hliðsjónar. Það er gott að heyra. Ég held að það megi nefna svo óskaplega margt ef menn vilja fara að anda þessarar tillögu og hv. þm. hafa verið að gera það í umræðunni í dag. Hér voru nefnd atvinnuþróunarfélögin og menntamálin þar sem mikil verkefni eru til staðar ef menn vilja, samgöngumálin. Ég ætla ekki að fara yfir þetta aftur.

Ég ætla að nefna þó til viðbótar starfsemi sem ég veit að á undir högg að sækja við fjárlagagerðina og það er þjónusta við fatlaða á þessu svæði. Það er ekki lítil atvinnugrein í sjálfu sér. Hún er kannski mikilvægari en margt annað sem við höfum rætt í dag. Fjölmörg störf tengjast henni og það er mjög gott framlag til atvinnumála á landsbyggðinni að standa vel við bakið á þjónustu af þessu tagi í dreifbýlinu.

Ég held að ég fari rétt með það að bara á Vesturlandi einu hafi hátt í 200 manns fengið kaupgreiðslur á síðasta ári vegna þjónustu við fatlaða og að um 50 föst eða heil störf sem þarna eiga hlut að máli séu bara á Vesturlandi einu. Það getur því verið æðimargt sem hægt er að skoða og a.m.k. finnst mér ástæða til að við fjárlagagerðina núna skoði menn það að sú starfsemi sem er til staðar í þessum dreifðu byggðum sem við erum að tala um fái framlög á fjárlögum þannig að ekki verði samdráttur frá því sem orðið er.