Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 17:13:39 (1085)

2002-11-05 17:13:39# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[17:13]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi við förgun spilliefna.

Þessi tillaga er flutt af hv. 5. þm. Norðurl. v., Jóni Bjarnasyni, og mér sem hér stend, og hún hljóðar svona:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta gera úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi við förgun spilliefna sem til falla í landinu ásamt öðrum iðnaðarúrgangi.``

[17:15]

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara yfir alla greinargerðina vegna þess að hluti hennar fjallar um sögu Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Ég tel ástæðulaust að eyða tíma mínum í að fara yfir þann kafla en drep hér niður neðar í greinargerðinni:

Flestir landsmenn vita hvert meginhlutverk Sementsverksmiðjunnar á Akranesi er en fæstir hafa áttað sig á því að verksmiðjan getur gegnt lykilhlutverki hvað varðar förgun spilliefna og notkun á iðnaðarúrgangi sem til fellur í landinu. Nú þegar hefur verksmiðjan unnið brautryðjendastarf á því sviði þar sem nokkur hluti þeirrar afgangsolíu sem til fellur í landinu er unninn í verksmiðjunni. Komið hefur fram í viðtölum við forráðamann verksmiðjunnar að hún gæti hæglega tekið að sér förgun aukins hluta spilliefna sem til falla hér á landi. Má þar nefna gúmmí, svo sem hjólbarða, sem væri hægt að nota í brennsluferli verksmiðjunnar, en einnig timburafganga og olíur af ýmsu tagi í meira mæli en gert hefur verið hingað til.

Tilgangur flm. er að gengið verði úr skugga um hvernig Sementsverksmiðjan getur í enn ríkari mæli unnið að förgun spilliefna. Gríðarlegt magn fellur til í landinu, afgangsolíur af ýmsu tagi, timbur- og gúmmíafgangar. Pappi sem til fellur er t.d. um 15--20.000 tonn, timbur 14--15.000 tonn, dagblöð 10--12.000 tonn, plast 1.500--2.000 tonn og hjólbarðar 1.500--2.000 tonn.

Hér er um gríðarlegt magn að ræða. Upptalningin flokkast undir brennanleg úrgangsefni en kannski er tæplega hægt að nota um þetta hugtakið spilliefni.

Eins og stendur fargar verksmiðjan um 5.000 tonnum af fljótandi efnum sem nær eingöngu eru úrgangsolíur. Sum þessara spilliefna eru flutt til útlanda til förgunar en vegna eðlis Sementsverksmiðjunnar þar sem unnin er vara við mjög hátt brennslustig er talið að hún geti auðveldlega sinnt mun stærri hluta þessarar nauðsynlegu spilliefnaförgunar og jafnframt gæti það styrkt rekstur hennar að einhverju leyti. Það kostar stórpening að farga þessum efnum.

Öllum ætti að vera ljóst að sívaxandi magn spilliefna í umhverfinu er gríðarlegt vandamál sem verður að leysa til frambúðar. Verði niðurstaða úttektarinnar jákvæð telja flm. mjög mikilvægt að Sementsverksmiðjan hf. á Akranesi fái það hlutverk að vera þátttakandi í spilliefnaförgun landsmanna og með því móti geti framtíðarrekstrargrundvöllur verksmiðjunnar styrkst verulega.

Virðulegi forseti. Ég vonast eftir góðum undirtektum hæstv. iðnrh. við þessu máli. Hér er um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir landið. Að undanförnu hefur verið fjallað nokkuð um þessar tillögur í fjölmiðlum og þær skrumskældar. Eins og menn vita eru þær þess eðlis að verið er að biðja um stjórnvaldsúttekt og kortlagningu á þeim möguleikum sem eru fyrir hendi í þessu samhengi. Það er von flm. að gengið verði til verka, bæði með þessa tillögu um förgun á spilliefnum eða brennanlegum úrgangsefnum, og síðan gerð úttekt á verðmyndun, að hæstv. ráðherra verði góðfúslega við þessum tillögum og láti vinna þetta sem hraðast.

Skrifað hefur verið í blöð um samkeppni á sementsmarkaði. Í DV fimmtudaginn 24. október var stór frétt þar sem talað var um að tugir þúsunda tonna yrðu brenndir í Sementsverksmiðjunni. Það er auðvitað ekki eðli tillögunnar að gera fasta tillögu um það hvað verði brennt í verksmiðjunni heldur er verið að biðja um úttekt á því hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Í blöðunum í morgun kemur síðan fram á völlinn Gunnar Örn Gunnarsson, stjórnarformaður Sementsverksmiðjunnar. Hann undirstrikar í grein sinni í raun og veru allt það sem við höfum verið að tala um og leggja fram í báðum þessum tillögum, hv. þm. Jón Bjarnason og ég, bæði hvað varðar samkeppnisstöðu verksmiðjunnar og líka hvað varðar möguleika hennar til þess að farga brennanlegum úrgangi.

Það er nauðsynlegt að halda því til haga að verksmiðjan notar í dag að langmestu leyti innflutta orku, þ.e. kol frá Suður-Afríku eða Póllandi sem eru flutt hingað með ærnum tilkostnaði. Það er jafnframt ljóst að við Íslendingar þurfum að senda utan til förgunar mikið af úrgangi sem er nýtanlegur í verksmiðjunni. Það kemur fram í grein stjórnarformannsins Gunnars Arnar Gunnarssonar í dag að í raun og veru hafa langflestir aðrir í sementsframleiðslu í löndunum í kringum okkur farið inn á þessa braut og tekið þátt í förgun brennanlegra spilliefna.

Það er kannski vert að taka fram að það eru áhöld um það hvað á að kalla spilliefni. Í raun og veru ættum við kannski frekar að leggja áherslu á hugmyndina ,,brennanleg úrgangsefni`` því, eins og segir í þáltill., í stað kolanna er aðallega verið að draga fram það gríðarlega magn sem fellur til í landinu af gasolíu af ýmsu tagi, timbur- og gúmmíafganga, pappír og dagblöð sem verður að flokka sem brennanleg úrgangsefni.

Ég geri alveg ráð fyrir því að þessi efnaflokkur yrði fyrstur til skoðunar hvað varðar orkugjafa til verksmiðjunnar. Það yrði til gríðarlegra hagsbóta fyrir landið í heild sinni vegna þess að, eins og ég segi og svo ég vitni aftur í grein Gunnars Arnar Gunnarssonar stjórnarformanns, aðrar verksmiðjur sem við berum okkur saman við og jafnvel flytjum inn frá hafa farið inn á þá braut að nota þessi efni, úrgangsefni, sem orkugjafa.

Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með. Það er hluti af lífi okkar hér í landinu að horfast í augu við það að við erum neysluþjóðfélag. Hér fellur til rusl og afgangar sem við berum sjálf ábyrgð á. Það verður varla liðið til lengdar að við kaupum okkur frá ábyrgðinni með því að senda vörur af þessu tagi í formi rusls sem við viljum ekki farga til annarra landa til förgunar. En eins og kunnugt er hafa Íslendingar um margra ára skeið stuðst við þjónustu Kommunekemi í Danmörku hvað varðar förgun spilliefna.

Sá dagur mun koma að við þurfum sjálf að takast á við þetta. Og það er von okkar að með úttekt á grunni tillögunnar geri menn sér miklu betur grein fyrir því hvaða hlutverki verksmiðjan getur gegnt, sérstaklega í sambandi við brennslu á þessum augljósu hliðarafurðum neyslusamfélags okkar, svo sem plastinu, úrgangsolíunum og timbrinu. Ég tel að hér sé mikið og stórt mál á ferðinni.

Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að jafnframt því að skoða möguleika á þátttöku verksmiðjunnar í lausn á þessum vanda verður að taka á öllum mengunarvörnum og mengunarvarnakröfum af ýtrustu nákvæmni og hörku, og það er alls staðar gert. Ef við berum saman við Aalborg Portland í Danmörku er verksmiðjan á Akranesi, Sementsverksmiðjan hf., mjög lítil. Mér er sagt að verksmiðjan í Álaborg í Danmörku sé tíu sinnum stærri (Gripið fram í: Tuttugu.) eða kannski tuttugu sinnum stærri en sú verksmiðja sem við erum að tala um á Akranesi. Þar er því um gríðarlega mikla og stóra myllu að ræða sem framleiðir sement og hún hefur að hluta til farið inn á þessar brautir. Hún er staðsett við sundin og þarf að standast miklar mengunarkröfur, hún er miðsvæðis í borg sem er fjölmennari en allt Ísland. Og Danir eru ekki þekktir fyrir annað en að gera miklar og strangar mengunarvarnakröfur þannig að það getur ekki orðið tæknilegt vandamál að leysa öll svoleiðis mál. Það kemur líka fram í báðum tillögunum að á síðustu árum hafi verið unnið stórátak hvað varðar mengunarvarnir hjá Sementsverksmiðjunni á Akranesi og hún uppfyllir nú ströngustu kröfur Hollustuverndar ríkisins varðandi mengunarmál. Eflaust má þó gott bæta og í framhaldi á svona skoðun yrði auðvitað líka að fara ofan í þau mál og gera tillögur þar að lútandi.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki í sjálfu sér að hafa fleiri orð í framsögu um þetta mál. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að fara yfir stöðu framleiðslu af þessu tagi í landinu og loka ekki bara augunum fyrir utanaðakomandi áreiti hvað þetta varðar eins og við höfum gert í svo mörgum öðrum málaflokkum. Við erum búin að missa t.d. skipasmíðaiðnaðinn á grunni hugsunar samkeppninnar hér í landinu, gjörsamlega til útlanda þannig að við erum nánast bara í viðgerðaþjónustu og byggingu smærri báta. Og við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum standa vörð um þá atvinnustarfsemi sem fyrir er í landinu og síðan að byggja áframhaldandi vinnu á ýmsum hugmyndum sem við höfum verið með þar að lútandi. Það getur ekki verið stefna í landinu að lögmál markaðarins ráði því hvort verksmiðjur eða atvinnustarfsemi sem hér hefur verið starfrækt með góðum árangri um áratuga skeið verði hinni svokölluðu samkeppni að bráð.

Við vitum vel að í þessum stóra markaðsheimi er enginn vandi fyrir stærri aðila að koma inn á markað og drepa af sér minni og meðalstór fyrirtæki. Við höfum þetta fyrir augunum, jafnvel í okkar eigin landi, þar sem stærri fyrirtæki koma inn og kaupa upp minni fyrirtæki. Við getum borið niður víða, hvort sem við erum að tala um sjávarútveg, flutning eða annað.

Samkeppnislögmál eiga ekkert að gilda alls staðar. Allar aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu sem við getum borið okkur saman við hafa tilburði til þess að vernda sína eigin framleiðslu. Má þar t.d. nefna viðleitni Dana til að vernda bjóriðnaðinn sinn með kröfunni um, fram að þessu, að bjórinn væri afhentur í flöskum þar sem það gerði samkeppnisaðilanum í Þýskalandi erfiðara fyrir. Að vísu hafa Danir gefist upp hvað varðar bjórinn og eru komnir með hann á dósir að kröfu Evrópusambandsins er mér sagt en það reyna allir til hins ýtrasta að standa vörð um tæki sín, framleiðslu og atvinnumöguleika síns fólks.

Þess vegna vona ég, virðulegi forseti, að báðar þessar þáltill. falli í góðan jarðveg hjá hæstv. iðnrh. og verði henni veganesti í þá vegferð að treysta möguleika verksmiðjunnar til áframhaldandi framleiðslu og atvinnusköpunar á Akranesi um margra ára skeið.