Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 17:41:17 (1091)

2002-11-05 17:41:17# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[17:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði um að við hefðum tekið upp samkeppni. Hann talaði líka um það fyrr í dag, þegar við töluðum um byggðamálin, að það hafi verið tekin upp samkeppni í fluginu. Þetta er nú bara nokkuð sem ég heyrði með mínum eigin eyrum eins og þar stendur.

Hvað stofnstyrki og hagstæð lán varðar þá eru það hlutir sem vissulega eru viðhafðir í öðrum löndum að einhverju leyti og innan Evrópusambandsins. Það er ekkert launungarmál að við gætum hér á Íslandi haft meiri styrki til stofnsetningar fyrirtækja á landsbyggðinni. Við erum með byggðakort sem lítur þannig út að nánast allt landið, fyrir utan höfuðborgarsvæðið og Reykjanes, er viðurkennd landsbyggð. Þar mættum við vera með miklu meiri styrki en við erum með í dag en allir styrkir eru tilkynningarskyldir til ESA.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þarna eru ákveðnir möguleikar. Þetta eru pólitískar ákvarðanir sem þarf til til að út í slíkt sé farið. En þá verðum við líka að hafa það í huga að nægt fjármagn sé til slíks. Það er nokkuð sem ég veit að Vinstri grænir eiga alltaf nóg af, þ.e. fjármagni, en við sem berum ábyrgð á ríkisfjármálum á ári hverju áttum okkur á að það er takmarkað fjármagn til hlutanna.