Starfsemi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 13:37:27 (1098)

2002-11-06 13:37:27# 128. lþ. 24.1 fundur 71. mál: #A starfsemi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[13:37]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ríkisútvarpið er flestum landsmönnum mjög kært. Oft deila menn þó um hið pólitíska vald sem annars vegar birtist okkur í ákvörðunum útvarpsráðs og hins vegar í stöðuveitingum. Einnig er deilt um skylduáskriftina en skylduáskriftin á að leiða til þess að allir landsmenn njóti svipaðrar þjónustu hvar sem er á landinu. Því er hins vegar ekki að heilsa sé litið til dreifikerfisins annars vegar og einnig þjónustu svæðisútvarpsins.

Svæðisútvörp hafa verið rekin myndarlega á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og ber að fagna því, enda hafa þau gríðarlegt menningarlegt gildi. Suðurland og Vesturland hafa hins vegar ekki notið sömu þjónustu svæðisútvarps Ríkisútvarpsins. Hér er því um aðstöðumun að ræða.

Árið 1999 var gerður þriggja mánaða tilraunasamningur við áhugamannaútvarpsstöð sem heitir Útvarp Suðurland. Sú stofnun er góðra gjalda verð en þessi tilraunasamningur hefur aldrei verið endurskoðaður, hvort heldur litið er á innra starf eða greiðslur fyrir þjónustuna.

Á Suðurlandi er einnig annar verktaki Ríkisútvarpsins, þ.e. ágætur fréttaritari þess, Þóra Þórarinsdóttir. Hún sér um dagskrárgerð á svæðinu. Því má spyrja: Hver er hinn fjárhagslegi ávinningur með þessu tvöfalda kerfi Ríkisútvarpsins á Suðurlandi?

Það er í raun skylda Ríkisútvarpsins að koma á legg metnaðarfullu svæðisútvarpi í öllum landshlutabundnu kjördæmunum sem nú eru að verða að veruleika. Það á við um Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Því spyr ég hæstv. menntmrh.:

1. Hverjar eru helstu væntanlegar breytingar á starfsemi og þjónustu Rásar 2 samfara flutningi starfseminnar til Akureyrar?

2. Eru áform um að allir landshlutar njóti á svipaðan hátt þjónustu svæðisútvarps Rásar 2?

3. Eru áform um að bæta dreifikerfi Ríkisútvarpsins þannig að allir landsmenn nái útsendingu útvarps og sjónvarps allra landsmanna?