Starfsemi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 13:40:08 (1099)

2002-11-06 13:40:08# 128. lþ. 24.1 fundur 71. mál: #A starfsemi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[13:40]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hefur beint til mín fyrirspurnum um Ríkisútvarpið og þar sem hér er um sjálfstæða ríkisstofnun að ræða hef ég snúið mér til Ríkisútvarpsins og fengið svör við þessum fyrirspurnum.

Við fyrstu fyrirspurninni er svarið svohljóðandi:

Snemma sumars var ráðinn dagskrárstjóri Rásar 2 sem hefur aðsetur á Akureyri. Ráðinn hefur verið einn dagskrárgerðarmaður á Akureyri sem sinnir morgunútvarpi Rásar 2. Annar dagskrárgerðarmaður á Akureyri hefur verið ráðinn í fullt starf fyrir dægurmálaútvarp Rásar 2 síðdegis virka daga. Frá því samsending Akureyrar og Reykjavíkur hófst 1. október í morgunútvarpi Rásar 2 féllu jafnframt niður svæðisbundnar morgunútsendingar RÚV á Norðurlandi. Starfskraftar starfsstöðvarinnar á Akureyri eru með öðrum orðum nýttir í landsútvarpi í meiri mæli en áður var.

Á næstunni er ráðgert að auka framlag til dagskrár Rásar 2 frá svæðisútvarpinu á Austurlandi. Svæðisbundnar morgunútsendingar á föstudögum falla aftur á móti niður þar eystra.

Unnið er að tæknilegum breytingum á starfsemi RÚV á Akureyri og verður þessi starfsemi að öllu leyti stafræn í nýju húsnæði í hjarta Akureyrarbæjar. Í kjölfarið verður hugað að möguleikum á að varpa út tónlistarefni frá Akureyri inn á dreifikerfi Rásar 2.

Heimild er fyrir að ráða dagskrárgerðarmann fyrir Rás 2 í hálfa stöðu að svæðisútvarpi Vestfjarða og svæðisútvarpi Austurlands. Þessi þáttur málsins er enn ekki kominn til framkvæmda. Þannig er gert ráð fyrir reglubundnu framlagi frá öllum svæðisstöðvum RÚV til Rásar 2 þegar áætlunin er að fullu komin í framkvæmd.

Önnur spurningin er svohljóðandi: ,,Eru áform um að allir landshlutar njóti á svipaðan hátt þjónustu svæðisútvarps Rásar 2?``

Svarið er svohljóðandi: RÚV hefur engar starfsstöðvar á Vesturlandi, Suðurnesjum og Suðurlandi. RÚV stendur þó að rekstri svæðisútvarps í samvinnu við Útvarp Suðurland með sérstökum samningi og aðgangi þess að dreifikerfi Rásar 2. Reglulega berst dagskrárefni frá Suðurlandi og Vesturlandi til dagskrár Rásar 2 og er vilji til þess af hálfu dagskrárstjórnar að auka þetta. Ríkisútvarpið telur sig vinna markvisst að framkvæmd þeirra tillagna sem samþykktar voru um flutning á hluta starfsemi Rásar 2 til Akureyrar og aukinn hlut svæðisstöðva í dagskrá rásarinnar. Einnig er talið að sú nýja tækni sem nú er að ryðja sér til rúms í útvarpsmálum muni auðvelda dagskrárgerð og flutning dagskrárefnis og geri kleift að auka hlut þeirra landshluta sem ekki hafa starfsstöð eða svæðisútvarp í dagskránni.

Á bak við þá ákvörðun að flytja stjórn Rásar 2 til Akureyrar og auka hlut landsbyggðarinnar í dagskrá hennar liggur sú viðleitni og skylda Ríkisútvarpsins að endurspegla fjölbreytni íslensks þjóðlífs bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni betur en nú er gert og nýta þá yfirburði sem felast í starfsemi stofnunarinnar um allt land.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Eru áform um að bæta dreifikerfi Ríkisútvarpsins þannig að allir landsmenn nái útsendingu útvarps og sjónvarps allra landsmanna?``

Í svarinu segir að í dreifikerfi Ríkisútvarpsins séu nú um 340 sendar fyrir útvarp og sjónvarp víðs vegar um landið auk langbylgjustöðvanna á Gufuskálum og Eiðum. Árlegur rekstrarkostnaður þessa kerfis er samkvæmt samningi við Landssímann um 150 millj. kr. Útsendingar Ríkisútvarpsins ná til um 99,8% landsmanna sem er hærra hlutfall en gerist annars staðar í Evrópu.

Unnið hefur verið samkvæmt framkvæmdaáætlun um styrkingu dreifikerfisins en fjárskortur hefur hamlað framkvæmdum. Á yfirstandandi ári er aðeins 10 millj. kr. varið til þessa verkefnis. Áætlunin gerir einkum ráð fyrir styrkingu dreifikerfisins með endurnýjun og stækkun gamalla senda en ekki er stefnt að fjölgun þeirra. Samtímis var unnið að breytingum á dagskrárflutningi til aðalsenda frá hinu gamla örbylgjukerfi yfir á ljósleiðarakerfi Landssímans. Markmiðið er að auka öryggi og gæði í móttöku dagskrárefnis. Að auki liggja fyrir fjölmörg önnur verkefni sem ekki hafa verið sett nákvæmlega á tímaáætlun.

Nýverið hefur verið samþykkt í ríkisstjórn að vinna að byggingu stafræns dreifikerfis fyrir sjónvarp. Samfara áætluninni skal lokun gamla dreifikerfisins tímasett. Ríkisútvarpið hefur hafið athugun á möguleikum þess að senda dagskrárefni útvarps og sjónvarps um gervitungl og einnig hvort hægt er að beita þeirri tækni til að bæta útsendingar til sveitabæja sem ekki ná útsendingum núna. Hins vegar er óvíst hvort þessi tækni leysir vanda þeirra. Ljóst þykir að mikill kostnaður fylgir þessari þjónustu.