Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:01:14 (1106)

2002-11-06 14:01:14# 128. lþ. 24.2 fundur 92. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka að sjálfsögðu svörin. Það er út af fyrir sig þakkarvert að málin hafa verið á einhverri hreyfingu síðan síðast var eftir þessu innt. Ég hef reyndar reglubundið tekið málið upp og fylgt því eftir síðan loforðin voru gefin í aðdraganda kosninganna 1999. Mér sýnist satt best að segja ekkert hafa veitt af að veita stjórnvöldum aðhald og halda þeim við efnið í þessum málum. Það má velta því fyrir sér hvort yngstu menn hefðu náð að lifa að þessi hús risu nema vegna þess að stjórnvöldum er haldið við efnið.

Ég tek undir það að eitt af því sem vakti athygli á sínum tíma voru þeir staðir sem hæstv. ríkisstjórn hafði tekið sér fyrir hendur að ákveða að skyldu fá menningarhús og þá kannski ekki síður þeir staðir sem áttu ekki að fá þau. Á Selfossi háttar einmitt svo til, eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir nefndi, að þar stendur gríðarlega mikið hús, og hefur lengi gert, ónýtt sem gæti orðið glæsilegt menningarhús, tónlistar- og leiklistarsalur. Þar er gryfjusalur með stóru sviði. Það má spyrja: Væri ekki alveg eins ástæða til að hlúa að menningunni þar, í þessu stóra sveitarfélagi Árborg, eins og úti í Vestmannaeyjum, sem að sjálfsögðu er líka gott og gilt?

Ég fagna því að málið er að skýrast á fleiri stöðum, t.d. á Austurlandi þar sem þetta hefur raunar verið fellt inn í fyrirliggjandi samning ríkisins og viðkomandi svæðis um menningarstarfsemi. Það er ein útfærsla af þessu þó það geti út af fyrir sig þýtt að svolítið erfiðara verði að greina í sundur hvað séu efndir á gamla loforðinu og hvað séu eðlileg framlög ríkisins til menningarmála á þessu svæði. En látum það gott heita svo fremi sem þetta verði mönnum raunverulega að liði og nýtist til að styrkja menningarstarf á viðkomandi svæðum.

Varðandi Akureyri þá fagna ég því ef ákvörðun nær þar að liggja fyrir fyrir áramót. Ég tel báða kostina sem hæstv. ráðherra reifaði koma vel til greina en legg aðallega áherslu á að bindandi samningar um þessi verkefni með fjárveitingum liggi fyrir vel fyrir næstu alþingiskosningar. Annars verður hæstv. ríkisstjórn heldur snautleg upplits á fundum er ég hræddur um.