Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:03:40 (1107)

2002-11-06 14:03:40# 128. lþ. 24.2 fundur 92. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé að rifja upp að ákvörðun um menningarhús á landsbyggðinni var frá upphafi tengd sölu ríkiseigna. Eins og við vitum öll þá frestuðust áform ríkisstjórnarinnar um sölu Símans og síðan hefur verið unnið fumlaust að þessum sölumálum. Það hefur komið mjög skýrt fram að menn hafa ekki talið sig þurfa að selja með hraði heldur hafa menn viljað skoða bestu kosti.

Nú virðast vera að opnast möguleikar á að sala ríkiseigna geti fjármagnað þetta verkefni ásamt nokkrum öðrum verkefnum. Þá skiptir miklu máli að öll undirbúningsvinnan hafi farið fram.

Varðandi staðina sem hér hefur verið minnst á liggur fyrir yfirlýsing um þessa staði og því vinn ég sem menntmrh. út frá því. Val staðanna skýrist að hluta af því að menn nálgast málið í ljósi þess að samgöngur hafa batnað mjög mikið og það hafa skapast forsendur fyrir því að byggja upp menningarhús sem þjóna stórum svæðum. Síðan hafa menn farið dálítið misjafnar leiðir eftir því hvaða staðir eiga í hlut. Ég ber þá sérstaklega saman Akureyri annars vegar og hins vegar Austurland þar sem menn hafa kosið að fara aðrar leiðir.

Selfoss var ekki inni í þessum yfirlýsingum. Hitt er annað mál að Selfyssingar hafa lýst sínu máli mjög vel. Þeir hafa fært sterk rök fyrir því að menningarmiðstöð rísi á Selfossi. Ég lít svo á að ekki beri að rugla því saman við þessa yfirlýsingu. Hún stendur og hana á að framkvæma. En það á að líta á Selfossdæmið sem sérstakt verkefni.