Framhaldsskóli á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:18:22 (1113)

2002-11-06 14:18:22# 128. lþ. 24.3 fundur 113. mál: #A framhaldsskóli á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hér til að taka undir með hv. fyrirspyrjanda Jóni Bjarnasyni og lýsa í leiðinni vonbrigðum með að hæstv. menntmrh. boði þá niðurstöðu hvað varðar næsta ár að ekkert verði af áformum um að stofna framhaldsskóla á vestanverðu Snæfellsnesi. Ég tel það mjög spennandi og sama gildir um áformin við utanverðan Eyjafjörð.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé alger tímaskekkja, eins og mál hafa þróast í okkar samfélagi, að nemendum gefist ekki almennt kostur á að stunda framhaldsnám frá heimili sínu a.m.k. til 18 ára aldurs. Framhaldsskólar á fleiri svæðum, a.m.k. fyrir tvö fyrstu árin eins og t.d. áform hafa verið um við Eyjafjörðinn, væru stórfellt innlegg í það mál og mikilvægt byggðamál og menntamál hvernig sem á það er litið.

Ég bendi svo á þann möguleika, herra forseti, þó að hæstv. ráðherra telji sig ekki hafa mikla fjármuni, að á þessu þingi verði tekin hin stefnumótandi ákvörðun. Það er hægt að taka stefnumótandi ákvörðun og leggja fram undirbúningsfjárveitingu, merkta undirbúningsfjárveitingu. Þá væri málið a.m.k. í höfn hvað það varðar.