Framhaldsskóli á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:19:44 (1114)

2002-11-06 14:19:44# 128. lþ. 24.3 fundur 113. mál: #A framhaldsskóli á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég held að svör hæstv. ráðherra um afgreiðslu þessa máls á Snæfellsnesi hljóti að valda vonbrigðum. Það er líka dapurlegt að þurfa að hlusta á hæstv. ráðherra lýsa því hér yfir, eftir áratuga setu Sjálftstfl. í menntmrn., að hann rói núna lífróður til að bjarga leifunum af verkmenntun í landinu. Það væri þó lofsvert ef tækist að byggja hana upp aftur.

Á Snæfellsnesi er um að ræða, á þessum aldri frá 16 ára til tvítugs, 350--360 ungmenni sem öll verða að fara heiman frá sér til þess að stunda nám. Reyndar er í Stykkishólmi framhaldsdeild fyrir fyrsta ár. Slík framhaldsdeild var í Ólafsvík og hefur verið undanfarin ár fyrir fyrsta árs nemendur í framhaldsskóla en henni var lokað í haust. Þetta er staðreyndin.

Ég skora á hæstv. menntmrh. sem ég hygg að sé, eins og hann lýsti yfir sjálfur, málinu velviljaður, að sýna velvild sína í verki í þessu máli. Það á að vera ríkissjóði alveg að meinalausu að leggja fram byrjunarfjárveitingu til að hefja undirbúning að stofnun þessa skóla.

Ég mun, herra forseti, komi ekki tillaga fram um það af hálfu ráðherrans sjálfs, beita mér fyrir því að lögð verði fram á þinginu við afgreiðslu fjárlaga tillaga um að veitt verði byrjunarfjárveiting til stofnunar framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Ég hygg að sú fjárveiting muni ekki ríða baggamuninn fyrir ríkissjóð en hún væri sterk og öflug vísbending til þessa byggðarlags um nýtt átak í menntamálum.