Einelti

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:26:43 (1117)

2002-11-06 14:26:43# 128. lþ. 24.4 fundur 146. mál: #A einelti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:26]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Einelti er viðkvæmt og erfitt vandamál við að glíma. Stefnumótun í eineltismálum þarf að tengjast heildarumhverfi skólans og hafa að markmiði að tryggja jákvætt skólaumhverfi þar sem vitað er að ofbeldi, svo sem einelti, er ekki liðið, boðleiðir eru skýrar og brugðist er við vandanum. Ég vil því þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu máli. Ég mun hér á eftir gera grein fyrir því með hvaða hætti menntmrn. hefur fylgt eftir umræðunni um einelti og gripið til ráðstafana.

Fyrir það fyrsta snertir þetta ákvæði í skólastefnu og aðalnámskrá grunnskóla. Foreldrar og forráðamenn skipta ævinlega meginmáli sem fyrirmynd í uppeldi barna og ungmenna. Undir það sjónarmið er tekið í nýrri aðalnámskrá grunnskóla sem tók gildi 1999. En ábyrgð skólans er einnig skýr eins og hún birtist í skólastefnunni og aðalnámskrá grunnskóla. Skólinn er vinnustaður barnanna og þar verja börnin drjúgum tíma dagsins samvistum hvert við annað, við leik og störf ásamt kennurum, skólastjórnendum og öðru starfsfólki skólans.

Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla er sérstakur kafli helgaður velferð nemenda. Þar er m.a. undirstrikað mikilvægi samábyrgðar, samstarfs skólasamfélagsins og að kennarar, skólastjórnendur og aðrir starfsmenn skólans, jafnt sem foreldrar, þurfi að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni sem fyrirmynda. Ítekað er mikilvægi umsjónarkennarans en hann er öðrum fremur tengiliður skólans við heimilin og fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska. Skólanum ber að setja skólareglur sem varða allt skólasamfélagið en setning þeirra er á ábyrgð skólastjóra.

Með gildistöku aðalnámskrár grunnskóla varð námsgreinin lífsleikni skylduámsgrein í 4.--10. bekk grunnskóla. Áherslur í lífsleikni undirstrika þá staðreynd að skólinn er vinnustaður nemenda þar sem verðmætt uppeldi fer fram. Markmið námsgreinarinnar er m.a. að efla félagsþroska nemenda, sið, vit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Í gegnum lífsleikni gefst skólanum tækifæri til að fjalla um mál sem upp kunna að koma hverju sinni og snerta líðan og velferð nemenda, svo sem þegar um einelti er að ræða.

Annar hluti svarsins snertir íslenskar rannsóknir á einelti í grunnskólum. Árið 1998 fól menntmrn. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála að gera rannsókn um umfang og eðli eineltis í íslenskum grunnskólum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í september 1999. Rannsóknin leiddi m.a. í ljós að 13% barna í 5. bekk töldu sig hafa orðið stundum eða oftar fyrir einelti á tilteknum vetri og um 4,6% höfðu lagt aðra í einelti stundum eða oftar. Í framhaldi af þessari rannsókn gerði stofnunin, fyrir tilstuðlan menntmrn., rannsókn á úrræðum skóla við lausn á eineltisvandamálum og lágu niðurstöður fyrir í september 2000. Markmið þeirra rannsókna var m.a. að kanna hvernig tekið væri á eineltismálum í skólum og hvernig foreldrar, nemendur og sérfræðingar tengdust því ferli. Markmiðið var einnig að rannsaka helstu boðleiðirnar, hvar vandamálin væri að finna og hvert væri úrlausnarferlið.

Ég vil að lokum, af því að tími minn er farinn að styttast, gera sérstaklega grein fyrir starfshópi um aðgerðir gegn einelti sem skipaður var af samráðsnefnd grunnskólanna. Í desember 2000 var tekin ákvörðun í samráðsnefnd grunnskóla sem í eiga sæti fulltrúar menntmrn., Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka kennara og skólastjóra og Heimilis og skóla, um stofnun samstarfshóps um einelti í grunskólum. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar áðurnefndra aðila auk fulltrúa frá Heimili og skóla. Starfshópnum var falið að koma með tillögur að samræmdri aðgerðaáætlun fyrir grunnskóla um hvernig skuli bregðast við ef og þegar einelti kemur upp. Ein af tillögum starfshópsins var að efna til málþings í nóvember sama ár og var markmiðið fyrst og fremst að kynna og ræða hugmyndir um markvissar aðgerðir gegn einelti og huga að forvörnum. Menntmrn. stóð fyrir þessari ráðstefnu og bauð prófessor Dan Olweus frá Noregi til að vera fyrirlesari. Olweus hefur gert viðamiklar rannsóknir á einelti í Noregi og skrifað fjölda fræðibóka. Hann hefur þróað aðgerðaáætlun gegn einelti í grunnskólum sem byggir á niðurstöðum rannsókna sem 2.500 nemendur í 42 skólum í Bergen tóku þátt í. Í lok verkefnisins hafði dregið úr einelti um 50% meðal nemenda auk þess sem skemmdarverk og önnur hegðunar- og samskiptavandamál höfðu sýnilega minnkað.

Prófessor Olweus hefur komið fram með markvissa áætlun um fræðslu og aðgerðir byggðar á rannsóknum sínum sem felur fyrst og fremst í sér menntun og handleiðslu kennara. Þess má geta að norska ríkisstjórnin hefur hrint af stað átaki í Noregi þar sem kerfi Olweusar er lagt til grundvallar. Að fengnu samþykki menntmrh. og þeirra aðila sem standa að aðgerðum gegn einelti var verkefninu hrint í framkvæmd nú í haust. Kennslu og þjálfun íslensku kennaranna annast norskir sérfræðingar, þar á meðal prófessor Dan Olweus. 45 grunnskólar sem ná til 15 þúsund nemenda víðs vegar á landinu taka þátt í þessu verkefni en grunnskólar í landinu eru um 200 talsins. Verkefninu lýkur formlega vorið 2004. Menntmrn. styrkir verkefnið um 4 millj. kr. úr endurmenntunarsjóði grunnskóla en auk þess leggur ráðuneytið til starfsmenn í starfshópinn.