Einelti

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:33:17 (1119)

2002-11-06 14:33:17# 128. lþ. 24.4 fundur 146. mál: #A einelti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Því miður komu þó engin svör frá ráðherranum um það hvort hann hygðist setja peninga í þá vinnu sem verið er að vinna utan aðgerðaáætlunarinnar sem hann nefndi. Vissulega eru starfshópar, málþing og aðgerðaáætlanir af hinu góða en það þarf meira til. Eins og kom fram hjá ráðherra eru það fleiri en eitt af hverjum tíu börnum í skóla sem telja sig hafa liðið fyrir einelti. Margir eru illa farnir eins og við þekkjum af dæmunum frá Stefáni Karli Stefánssyni og þeim félögum Sigurði Hólm Gunnarssyni og Kristbirni Björnssyni. Þessir menn sem vinna að þessu úti í samfélaginu eru að bjarga mannslífum, og sú vinna sem þeir sinna er mjög dýr, t.d. það að Stefán Karl ætlar að setja upp einstaklingsráðgjöf, hópráðgöf og síðan vinahópa til að hjálpa þeim sem eiga í þessu og eru illa farnir eftir einelti. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hyggst hann styðja við þá vinnu sem farið hefur af stað hjá þessum aðilum sem hafa liðið fyrir einelti sjálfir og tekið það upp hjá sjálfum sér að reyna að hjálpa þeim sem eru í sömu sporum? Mun hann leggja því lið? Mun hann setja fjármagn í þetta? Ég sé að það er ekkert á fjárlögum nú til þessara hópa. Hæstv. ráðherra hefur auðvitað yfir ákveðnu fjármagni að ráða sem ráðherra, t.d. ráðstöfunarfé sínu, og ég spyr hæstv. ráðherra: Mun hann leggja þessu lið með fjármagni? Þarna er verið að vinna mjög mikilvæga vinnu, ekki síður en aðgerðaáætlun hæstv. ráðherra sem er einnig af hinu góða. Það þarf hins vegar líka að leggja lið sjálfsprottnu starfi eins og því sem þeir vinna hér og ég hef nefnt fyrr í ræðu minni.