Einelti

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:35:17 (1120)

2002-11-06 14:35:17# 128. lþ. 24.4 fundur 146. mál: #A einelti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:35]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Það má segja, herra forseti, að viðbrögð við þessum vanda sem er alvarlegur og snertir sjálfar undirstöður lýðræðisins þurfi að vera á tvenns konar sviðum. Annars vegar þurfum við að hafa kerfi innan skólanna sem kann að bregðast við þessum vanda, og bregst rétt við honum. Það er það sem ég lýsti hér í nokkuð ítarlegu máli í svari mínu fyrst, hvernig verið er að vinna að því að byggja upp viðbragð til bráðabirgða í nokkrum tilraunaskólum sem taka aðra skóla í fóstur. Það er meiningin að þetta nái á endanum til allra skóla á landinu. Hitt er að það skiptir líka miklu máli að snúa sér til foreldranna og til nemendanna sjálfra, og til þess þurfum við fólk sem hefur hæfileika til að sannfæra fólk, bæði foreldra og nemendur, um hvert vandamálið sé í hnotskurn, og að mikilvægt sé fyrir alla aðila, ekki síst þá sem stunda einelti, að brjótast út úr þeim vanda. Þá eru einmitt bestir einstaklingar eins og þeir sem hafa verið nefndir hér, þeir sem hafa mikla hæfileika til að ná til fólks, sannfæra það og vinna þar gott verk.

Ég hef sjálfur átt viðræður við Stefán Karl Stefánsson um það að koma á fundi þar sem hann skýrir fyrir menntmrn. það mikla og góða starf sem hann vinnur, og menntmrn. skýrir fyrir honum það starf sem þar er verið að vinna til þess að aðilar vinni vel saman. Það er ljóst að ég mun ýta undir samstarf af þessu tagi og ég mun styrkja það. Ég tel mjög mikilvægt að við virkjum á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum, t.d. í æskulýðsmálunum, þá einstaklinga sem eru reiðubúnir til þess að láta gott af sér leiða. Það þarf að vinna þetta mál á tvennum vígstöðvum og hinir áhugasömu einstaklingar eru hluti af þessu liði, því mikla sjálfboðaliði sem vill láta gott af sér leiða í þessum efnum. Ég vil vinna með þeim.