Tilskipun um innri markað raforku

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:49:44 (1121)

2002-11-06 14:49:44# 128. lþ. 24.5 fundur 90. mál: #A tilskipun um innri markað raforku# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Vorið 2000 var lögð fram og afgreidd till. til þál. um staðfestingu ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Ein af þessum tilskipunum sem í hlut átti var tilskipun nr. 96/92/EB um innri markað fyrir raforku.

Það vakti litla athygli og satt best að segja voru fáir sem hreyfðu þessu máli þegar það fór hér í gegn á vordögum 2000. Nú er öldin önnur, nú brennur það á mönnum að hrinda eigi þessari tilskipun í framkvæmd og þá kostar það mikla umbyltingu á raforkukerfi landsmanna. Heyrst hafa á síðustu vikum sjónarmið um að rétt sé að Ísland leiti að varanlegum fyrirvara frá þessari tilskipun og í þann hóp hafa m.a. blandað sér stjórnarþingmenn sem studdu það að Ísland félli frá svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart tilskipuninni á sínum tíma.

Helstu markmið þessarar tilskipunar eru að gera raforkugeirann að hluta innri markaðar Evrópusambandsins, tryggja öryggi í afhendingu raforku, auka samkeppni í framleiðslu á raforku og gera fyrirtækjum kleift að eiga viðskipti með raforku milli landa á svæðinu. Eins og menn heyra af þessari upptalningu á Ísland satt best að segja ákaflega lítið erindi inn í efni þessarar tilskipunar. Að minnsta kosti tvö af fjórum meginmarkmiðum hennar eiga alls ekki við á Íslandi sem er, eins og mönnum á að vera kunnugt, eyja og algjörlega einangruð í orkulegu tilliti. Það að auðvelda viðskipti milli landa með raforku og tengja raforkumarkaði einstakra landa markaði Evrópska efnahagssvæðisins eða Evrópusambandsins í heild á því alls ekki við hér. Það vekur mikla furðu að Ísland skyldi ekki huga betur að stöðu sinni í þessum efnum. Maður veltir fyrir sér hvað íslenskir ráðamenn hafi verið að hugsa, að taka það a.m.k. ekki til skoðunar að Ísland færi fram á varanlega undanþágu frá þessari tilskipun þangað til, ef sú tíð rynni upp, Ísland yrði tengt hinum sameiginlega orkumarkaði með sæstreng. Það hefur stundum verið til umræðu.

Í aðildarviðræðum nýrra umsóknarríkja um aðild að Evrópusambandinu, hafa eftir því sem ég best veit a.m.k. þrjú ríki fengið eða eru líkleg til að fá meira eða minna varanlega undanþágu frá því að tengja sig þessum innri markaði með raforku. Þetta eru eyjarnar Malta og Kýpur, og Eistland vegna sérstakra tengsla sinna við raforkumarkað Rússlands. Þess þá heldur vakna spurningar um hvers vegna þessi kostur var ekki athugaður fyrir Ísland. Vel má vera að þetta sé enn mögulegt. Ég hef af því tilefni lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. iðnrh.:

1. Hefur iðnaðarráðuneytið kannað eða óskað eftir að utanríkisráðuneytið kanni möguleika á að Ísland verði undanþegið ákvæðum tilskipunar 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku?

2. Hvaða leiðir teldi ráðuneytið helst færar til að fá Ísland undanþegið ákvæðum áðurnefndrar tilskipunar í ljósi þess að fallið var frá stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu vorið 2000?

3. Hvaða afleiðingar telur ráðherra að það geti haft að Ísland hefur vanefnt skuldbindingar sínar um að innleiða efni tilskipunarinnar í íslenska löggjöf fyrir 1. júlí 2002?