Tilskipun um innri markað raforku

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:53:06 (1122)

2002-11-06 14:53:06# 128. lþ. 24.5 fundur 90. mál: #A tilskipun um innri markað raforku# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram fyrirspurn. Sem svar við fyrstu spurningunni er þetta að segja:

Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 168/1999, var tilskipunin felld inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Með ályktun vorið 2000 samþykkti Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna tilskipunarinnar. Þegar innleiðing tilskipunarinnar var í undirbúningi var af Íslands hálfu bent á að aðstæður á Íslandi væru sérstakar og ólíkar því sem tíðkaðist á meginlandi Evrópu, m.a. vegna smæðar markaðarins, einangrunar hans og eðlis orkulindanna. Skýrt kom fram af hálfu framkvæmdastjórnarinnar að undanþágur frá III. kafla tilskipunarinnar sem fjallar um vinnslu kæmu ekki til greina, ekki einu sinni fyrir lítil og einangruð raforkukerfi. Af því leiðir að ekki var unnt að fá undanþágu frá tilskipuninni í heild sinni. Hér er verið að vísa til fundar vinnuhóps EFTA um orkumál með sérfræðingum framkvæmdastjórnarinnar þann 18. janúar 1996. Á fundi sama vinnuhóps sem haldinn var 20. apríl 1998 skýrði fulltrúi Íslands frá því að tilskipunin hefði verið til umfjöllunar í ríkisstjórn Íslands sem teldi að fella ætti hana inn í EES-samninginn. Jafnframt greindi fulltrúinn frá því að þessi afstaða ríkisstjórnarinnar byggði á tveimur forsendum, í fyrsta lagi þeirri að Ísland fengi tveggja ára aðlögunartíma, þ.e. til 1. júlí 2002, og í öðru lagi að Ísland fengi sömu stöðu og lítil einangruð svæði líkt og Lúxemborg. Sú varð niðurstaðan. Í framansögðu felst að Ísland hefur sömu möguleika og lítil einangruð svæði til að fá undanþágu frá öðrum köflum tilskipunarinnar en þeim er varða vinnslu. Til þess að fá undanþágu þarf Ísland með sama hætti og hin litlu einangruðu svæðin að sýna fram á veruleg vandkvæði við að koma þessum reglum tilskipunarinnar í framkvæmd. Á fyrri hluta ársins 1997 fól iðnrn. Orkustofnun að leggja mat á hvort vandkvæði væru því samfara að taka tilskipunina inn í EES-samninginn. Það var niðurstaða stofnunarinnar að ekki væru vandkvæði á því að tilskipunin næði til Íslands. Þvert á móti var það meginniðurstaða stofnunarinnar að tilskipunin styrkti stefnu stjórnvalda um fyrirkomulag orkumála og um nýtingu orkulinda landsins.

Sem svar við annarri spurningu: Af svari mínu við fyrstu spurningu leiðir að eini möguleiki Íslands til þess að fá undanþágu frá öðrum köflum tilskipunarinnar en þeim er varða vinnslu er að sýna fram á að það sé verulegum vandkvæðum bundið að láta þessar reglur tilskipunarinnar koma til framkvæmda. Sönnunarbyrðin í þeim efnum gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA hvílir á Íslandi og eru gerðar mjög ríkar sönnunarkröfur þar sem um undanþágur frá grundvallarreglum er að ræða. Þá verður að undirstrika að svigrúm Eftirlitsstofnunarinnar til að heimila frávik takmarkast ávallt af því svigrúmi sem samningurinn sjálfur veitir.

Ég átti nýlega fund í Brussel með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fulltrúum frá ESA þar sem framangreindur skilningur var staðfestur. Á þessum fundi kom fram að eina ríkið sem fengið hefur undanþágu frá þessum ákvæðum tilskipunarinnar er Lúxemborg. Lýtur undanþágan eingöngu að kröfum tilskipunarinnar um aðskilnað milli flutnings og dreifingar og byggist á því að flutningskerfi Lúxemborgar er eingöngu 12 km langt. Jafnframt kom fram að þessir fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar töldu útilokað að Malta gæti fengið undanþágu frá ákvæðum tilskipunarinnar um vinnslu raforku.

Sem svar við þriðju spurningu: Vanræksla á að innleiða efni tilskipunar sem felld hefur verið inn í EES-samninginn er brot á þeim samningi. Afleiðingar slíkra brota geta verið ýmsar. ESA mun hefja formlega málsmeðferð í þeim tilgangi að knýja ríkið til að efna þessar samningsskuldbindingar og getur það mál endað fyrir EFTA-dómstólnum. Ísland hefur þegar fengið áminningu frá ESA um að frestur til að innleiða tilskipunina sé liðinn. Geti einstaklingur eða lögaðili sýnt fram á það fyrir íslenskum dómstólum að vanrækslan hafi bakað honum tjón getur íslenska ríkið orðið skaðabótaskylt að öðrum bótaskilyrðum fullnægðum.