Tilskipun um innri markað raforku

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:58:30 (1123)

2002-11-06 14:58:30# 128. lþ. 24.5 fundur 90. mál: #A tilskipun um innri markað raforku# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Vanræksla er brot á EES-samningnum, sagði hæstv. ráðherra áðan. Í dag er 6. nóvember árið 2002 og frv. til nýrra raforkulaga sem byggir þá á upptöku tilskipunarinnar sem hér um ræðir liggur ekki enn fyrir hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Það væri fróðlegt fyrir þingheim og væri til upplýsingar fyrir þá umræðu sem hér fer fram ef okkur væri gerð grein fyrir því af hverju frv. hefur ekki komið fram og af hverju það hefur ekki þegar verið tekið til umræðu. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þingheimur fái tækifæri til að takast á við þau nýmæli sem þar eru. Frv. hefur reyndar verið kynnt og það hefur komið fram áður en einhverra hluta vegna er tregða á því að það komist hér sem þinggagn til umfjöllunar. Herra forseti. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að bæði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og hv. þm. Björn Bjarnason hafa opinberlega gagnrýnt það með hvaða hætti þetta frv. varð til?