Orkuverð á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:05:25 (1127)

2002-11-06 15:05:25# 128. lþ. 24.6 fundur 160. mál: #A orkuverð á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi var gengið frá heimildum fyrir ríkið til að kaupa hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lögðumst gegn þessum kaupum og vildum að sveitarfélögin fyrir vestan gætu áfram rekið orkufyrirtæki sitt af myndarskap. Ég tel mikilvægt að fylgjast með framvindu mála hvað varðar orkubúið og afhendingu orku á Vestfjörðum í framhaldi af þessum gjörningi. Ég mun fylgjast með því með fyrirspurnum til ráðherra í framtíðinni. Ég vil fá að vita hvernig þróunin verður.

Orkubú Vestfjarða bjó við að framleiða 40% af eigin orku og hafði því töluvert lægri taxta en t.d. viðmiðunartaxtar Rariks. Þess vegna, virðulegi forseti, vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. iðnrh.:

Hver hefur þróun gjaldtaxta verið frá því að ríkið tók við rekstri Orkubús Vestfjarða:

a. taxta einstaklinga,

b. taxta iðnfyrirtækja?

Og í öðru lagi spyr ég um það sem e.t.v. er enn þá mikilvægara að fá hugmyndir um:

Hvaða áætlanir eða áform eru uppi hjá Orkubúi Vestfjarða um þróun gjaldskrár á þessu ári og næstu tveimur árum, þ.e. 2002--2004? Þar vil ég líka fá áform um gjaldskrárbreytingar vegna:

a. gjaldskrár einstaklinga,

b. gjaldskrár iðnfyrirtækja.