Framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:26:04 (1138)

2002-11-06 15:26:04# 128. lþ. 24.8 fundur 178. mál: #A framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Eignarhaldsfélög landshlutanna hafa gegnt mikilvægu hlutverki á síðustu árum í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Á sumum stöðum kom það púður einmitt frá þessum eignarhaldsfélögum sem þurfti til að hjólin snerust hraðar í atvinnulífinu úti á landi.

Hlutverk þessara félaga við að eyða atvinnuleysinu á 10. áratugnum er óumdeilt. Það var einmitt þetta mikilvæga hlutverk sem varð til að þáv. byggðamálaráðherra, Davíð Oddsson forsrh., lagði til í byggðaáætlun árið 1998 að eignarhaldsfélög og atvinnuþróunarsjóðir landshlutanna fengju árlega styrki gegnum Byggðastofnun. Sú tillaga var samþykkt einróma í Alþingi á sínum tíma. Styrkirnar áttu að nema 300 millj. kr. á ári í fjögur ár og var gert ráð fyrir að á móti kæmi framlag frá sveitarfélögunum og helmingur af því til viðbótar frá atvinnulífinu í hverju héraði.

Þáverandi stjórn í Byggðastofnun hafði lagt þessa tillögu fram á sínum tíma og var einróma niðurstaða um þessa tilhögun í stjórninn. Með þessari tillögu áttu að renna um 3 milljarðar kr. til atvinnuuppbyggingar úti á landsbyggðinni á fjórum árum.

Það fer ekki milli mála, herra forseti, að þessi aðgerð hefur styrkt landsbyggðina verulega þar sem skilyrðum fyrir framlagi Byggðatofnunar hefur verið fullnægt. Ef Suðurnesin eru tekin sem dæmi skipta þau fyrirtæki tugum sem hafa náð fótfestu vegna þess að eignarhaldsfélag Suðurnesja hefur veitt þeim brautargengi. Sá andi ríkti á síðasta kjörtímabili í Byggðastofnun að færa valdið til héraðanna og sver sú tilhögun sem lýst var á undan sig einmitt í ætt við þá hugmyndafræði. Hún kemur einnig fram í því að gerður var samningur við atvinnuþróunarfélög landshlutanna um að greiða laun þriggja manna sem væru starfsmenn sveitarfélaganna á héraðsgrunni. Þar var um að ræða starfsmenn sem einbeittu sér að ferðamálum, viðskiptaáætlunum og atvinnuþróun. Þessir voru starfsmenn sveitarfélaganna sem fengju greiðslur frá Byggðastofnun en væru jafnframt ráðgjafar Byggðastofnunar um málefni héraðsins.

Þessa starfsmenn fjármagnaði Byggðastofnun einmitt í þeim tilgangi að færa völdin heim í hérað. Þessi mikilvæga stefna hefur ekki haldið á yfirstandandi kjörtímabili. Framlög til eignarhaldsfélaganna hafa verið tekin frá þeim og samningar við atvinnuþróunarsjóðina verið í uppnámi. Ég vil því leggja eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. byggðamálaráðherra sem hljóða svo:

Hve há voru framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða á landsbyggðinni hvert ár síðustu fjögur ár og hvar á landinu eru þau?

Hver er ástæða þess að hætt er að veita þessi framlög?