Leyniþjónusta

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:53:02 (1149)

2002-11-06 15:53:02# 128. lþ. 24.9 fundur 136. mál: #A leyniþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að ekki skorti lagastoð til þess að starfrækja leyniþjónustustarfsemi innan lögreglunnar. Síðan segir hæstv. ráðherra að það sé mikilvægt að þetta sé allt almenningi ljóst og fyrir opnum tjöldum en botnar setninguna með því að segja að eðli máls samkvæmt sé ekki hægt að upplýsa um hvað eigi sér stað núna í störfum af þessu tagi. Það má ekki nota nafngiftina leyniþjónusta. Starfsmenn dómsmrn. hafa engu að síður gert það og hér segir m.a. í frétt frá Morgunblaðinu 12. september, með leyfi forseta:

,,... skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, sagði á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu, sem haldinn var á Hótel Sögu í gær, að eftirlit af því tagi sem fella mætti undir leyniþjónustustarfsemi væri nauðsynlegt hér á landi sem annars staðar.`` --- Leyniþjónustustarfsemi. Það er mikið rétt að rædd var í allshn. fyrir fáeinum dögum sú hugmynd að eiðsvarin nefnd hefði eftirlit með leyniþjónustu af þessu tagi. Það kann vissulega að vera hugmynd en ég minni á að í Noregi er slíkt eftirlit með leyniþjónustunni, og undir handarjaðri þessarar eftirlitsnefndar viðgekkst það að símar pólitískra andstæðinga valdhafa voru hleraðir. Hleraðir voru símar friðarsinna og andstæðinga hernaðarbandalaga svo dæmi sé tekið.

Verkefnið sem blasir við okkur er að uppræta hvers kyns pólitíska njósnastarfsemi af þessu tagi. Hún samrýmist ekki hugmyndum okkar um lýðræði. Ég vil minna á að í sjálfri nafngiftinni ,,leyniþjónusta`` felst viðurkenning á því að hún eigi að fara leynt með störf sín. Það á ekki að viðgangast.