Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:31:27 (1157)

2002-11-07 10:31:27# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að beina spurningum til hæstv. iðnrh. sem tengjast Norðlingaölduveitu og Þjórsárverum.

Eins og menn vita hefur staðið mikill styr um Norðlingaölduveitu vegna þess að talið er að með því að ráðast í hana verði laskað friðland í Þjórsárverum sem talið er frá náttúrufarslegu sjónarmiði ákaflega mikilvægt og raunar líffræðileg perla.

Nú hefur það gerst að fjórir mikilsvirtir vísindamenn hafa komið fram opinberlega og halda því fram að niðurstöður þeirra, niðurstöður rannsókna hafi verið skekktar og bjagaðar svo stappar nærri fölsun til þess að reyna að ná fram hagstæðu mati á umhverfisáhrifum og þar með auðvelda Landsvirkjun að fá fram samþykki við Norðlingaölduveitu. Þetta mál er þeim mun alvarlegra sem ljóst er að hér er um að ræða vísindamenn sem þekktir eru fyrir vandvirkni og heiðarleg vinnubrögð og það hlýtur að vera svo að heiðarleiki þeirra sem faglegra vísindamanna sé dreginn yfir allan efa.

Einn þeirra, Gísli Már Gíslason prófessor, sagði í viðtali við Stöð 2 að atriði sem hefðu verið framkvæmdaraðila í óhag hefðu beinlínis verið felld út vísvitandi og niðurstaða hans var að það gjörbreytti niðurstöðum um áhrif Norðlingaölduveitu á vatnalíf í Þjórsárverum. Hann staðhæfir að sökum þessa komi út allt önnur mynd af framkvæmdum en ella hefði orðið. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor sem eytt hefur öllu starfslífi sínu í að rannsaka Þjórsárver segir sömuleiðis að vísindamenn hafi verið beittir ákveðnum þrýstingi til þess að setja niðurstöður fram á tiltekinn hátt. Hún nefnir Landsvirkjun og hún nefnir VSÓ. Þó kastar fyrst tólfunum þegar ung vísindakona, Ragnhildur Sigurðardóttir, segir að hún eigi nú heiður sinn að verja sem vísindamanns sökum þess mikla þrýstings sem á hana hefur verið lagður og hún leggur fram í Fréttablaðinu í dag tölvupóst máli sínu til stuðnings.

Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh.: Er það ekki alveg ljóst að hún mun beita sér fyrir því að áður en settur umhvrh. kveður upp úrskurð sinn í næstu viku verði sanngildi þessara fullyrðinga þessara virtu vísindamanna brotið til mergjar og kannað út í hörgul?